Bikarúrslitaleikur í húfi í Krikanum í dag!

Fótbolti
Bikarúrslitaleikur í húfi í Krikanum í dag!
Dínó fagnar sigri á FH sumarið 2004

Það er komið að stærsta leik sumarsins til þessa þegar strákarnir sækja FH heim í undanúrslitum Mjólkurbikarsins klukkan 17:00 í dag. Það má búast við svakalegum leik og hvetjum við alla sem geta til að mæta í Hafnarfjörðinn í dag.

Við munum hita upp á Sport & Grill í Smáralind sem hefst uppúr 15:00.

Þetta er í áttunda skiptið sem KA leikur í undanúrslitum bikarkeppninnar og er þetta í þriðja skiptið sem KA og FH mætast á þessu stigi keppninnar.

Kaplakriki 2001

KA lék í næstefstu deild sumarið 2001 og var þegar komið var í september í úrslitastöðu í bæði deild og bikar. Þann 12. september sótti liðið FH-inga heim í undanúrslitum bikarkeppninnar en lið FH var eitt af bestu liðum efstu deildar og ekki margir sem reiknuðu með sigri KA.

Ekki hjálpaði liðinu að þremur dögum síðar fór fram lokaleikur 1. deildar þar sem KA sótti Þróttara heim í Laugardalinn í hreinum úrslitaleik um sæti í efstu deild. Annað kom hinsvegar á daginn, KA-menn léku mjög sterkan varnarleik og voru stórhættulegir í skyndisóknum, sérstaklega hægra megin þar sem Dean Martin lék varnarmenn FH grátt og lagði upp eina mark fyrri hálfleiks sem Hreinn Hringsson gerði.

Dean Martin var svo aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik þegar hann fann Ívar Bjarklind í teignum sem tvöfaldaði forskotið með viðstöðulausu skoti. Þorvaldur Makan kláraði leikinn svo endanlega með laglegu marki og öruggur 0-3 sigur KA staðreynd. KA varð þar með fyrsta neðradeildarliðið til að komast í úrslitaleikinn í sjö ár.


KA fór illa með FH í Hafnarfirðinum í undanúrslitunum 2001

Eins og flestir vita þá gerðu Þróttur og KA loks 2-2 jafntefli í hörkuleik í kjölfarið sem dugði KA liðinu til að tryggja sér sæti í deild þeirra bestu. Framundan var því fyrsta sumar KA í efstu deild frá árinu 1992 sem og fyrsti bikarúrslitaleikur félagsins frá sumrinu 1992.

Laugardalur 2004

FH var með ógnarsterkt lið sumarið 2004 og fór að lokum að liðið landaði fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í sögu félagsins. Raunar tryggðu Hafnfirðingar sér titilinn í lokaumferðinni með sigri á KA á Akureyrarvelli og þýddi tapið að KA féll úr deild þeirra bestu. Lítið gekk sóknarlega hjá KA liðinu þetta sumarið, liðið lék góðan varnarleik en vantaði sárlega fleiri mörk og niðurstaðan var því fall.

En nokkrum dögum eftir tapið í deildinni mættust liðin í undanúrslitum bikarsins á Laugardalsvelli. Ekki voru margir sem reiknuðu með sigri KA enda liðið nýfallið einmitt eftir tap gegn sterku liði FH. En annað kom þó á daginn og Hreinn Hringsson nýtti sér mistök í vörn FH-inga og renndi boltanum laglega í netið. Þrátt fyrir gríðarlegan sóknarþunga frá Íslandsmeisturunum þá vörðust KA-menn vel og skipulega og lönduðu óvæntum en mögnuðum sigri, KA var komið í úrslitaleikinn í Bikarkeppninni í þriðja sinn.

Fjórir undanúrslitaleikir í röð

Eins og kom fram áður er leikur dagsins áttundi undanúrslitaleikur KA í bikarnum. Árin 2001-2004 lék liðið alltaf í undanúrslitum og tókst tvívegis að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum, í bæði skiptin með sigri á FH-ingum.

Sumarið 2002 var heldur betur eftirminnilegt en nýliðar KA áttu frábæru gengi að fagna í efstu deild og enduðu að lokum í 4. sæti sem tryggði félaginu sæti í Evrópukeppni. Auk þess fór liðið alla leiðina í undanúrslit bikarsins þar sem KA mætti Bikarmeisturum Fylkis en Árbæingar unnu sigur á KA í vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum 2001.

Þrátt fyrir að KA hafi verið sterkari aðilinn voru það Fylkismenn sem gengu á lagið og Finnur Kolbeinsson skoraði fyrst með skoti í varnarmann og inn, Sævar Þór Gíslason gerði annað úr umdeildri vítaspyrnu og það þriðja eftir skyndisókn. Úrslitin virtust því ráðin í hálfleik enda staðan 3-0 og áfram sóttu Árbæingar í þeim síðari. En er 25 mínútur lifðu leiks tók KA völdin.


Bikarævintýrið strandaði aftur á Fylki í Laugardalnum

Hreinn Hringsson kom inná sem varamaður og skoraði aðeins sex mínútum síðar með skalla eftir fyrirgjöf Þorvalds Makans, staðan orðin 3-1 og enn um tuttugu mínútur eftir. Áfram sótti KA og eftir þunga pressu minnkaði Þorvaldur Makan muninn í 3-2 eftir að hann lék inn í vítateiginn og skaut í stöng og inn, enn voru tvær og hálf mínúta eftir af venjulegum leiktíma og spennan orðin mikil. Fylkismenn lögðust í nauðvörn og tókst að standast síðustu áhlaup KA-liðsins sem féll þar með úr leik eftir hetjulega baráttu.

Sumarið 2003 mætti KA svo Skagamönnum í undanúrslitunum. Markalaust var í fyrri hálfleik en upphaf þess síðari kolfelldi okkar lið. Skagamenn skoruðu þrívegis á fyrstu 10 mínútunum og Slobodan Milisic fékk svo rautt spjald í kjölfar þriðja marksins. Elmar Dan Sigþórsson lagaði stöðuna skömmu síðar en það dugði ekki og Skagamenn innsigluðu sigurinn með marki í uppbótartíma, 1-4 tap og bikardraumurinn úti.

Bikarævintýrið 2015

KA lék síðast í undanúrslitum bikarsins sumarið 2015 en rétt eins og árið 2001 lék KA þá í næstefstu deild. Bikarævintýrið hófst á 6-0 stórsigri á Dalvík/Reyni á KA-vellinum. Juraj Grizelj og Ben Everson skoruðu báðir tvívegis áður en Ólafur Aron Pétursson og Ýmir Már Geirsson bættu við mörkum á lokamínútum leiksins.


Ólafur Aron Pétursson skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu í 4-0 sigri á Álftanes

Aftur vannst þægilegur sigur í næstu umferð og aftur á heimavelli. Nú voru það Álftnesingar sem lágu í valnum eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi. Ævar Ingi Jóhannesson, Orri Gústafsson, Ólafur Aron Pétursson og Ben Everson sáu um markaskorunina og tryggðu sæti í 16-liða úrslitum bikarsins.


KA kom á óvart og sló út sterkt lið Breiðabliks á þeirra eigin heimavelli

Það voru ekki margir sem reiknuðu með miklu í 16-liða úrslitunum en KA dróst gegn sterku liði Breiðabliks og var leikið í Kópavogi. Blikar voru ósigraðir í efstu deild og á miklu skriði á sama tíma og KA var í 5. sæti 1. deildar. En KA-liðið lék frábæran leik sem fór í framlengingu eftir að bæði lið höfðu átt skot í stöng seint í leiknum. Ævar Ingi Jóhannesson skoraði loks eina mark leiksins í framlengingunni og Srdjan Rajkovic átti stórleik í markinu þegar heimamenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin. KA var þar með komið í 8-liða úrslit keppninnar og var eina neðri deildarliðið sem var eftir í keppninni.


Frábær byrjun tryggði KA-liðinu sæti í undanúrslitum Borgunarbikarsins

Áfram hélt liðið að fella úrvalsdeildarliðin úr Borgunarbikarnum er Fjölnismenn voru lagðir að velli 2-1 á Akureyrarvelli. KA byrjaði með látum og var komið í 2-0 eftir átta mínútur en Davíð Rúnar Bjarnason skoraði eftir aukaspyrnu og Ævar Ingi Jóhannesson vippaði boltanum laglega í netið eftir stungusendingu. Mark Magee minnkaði muninn fyrir gestina eftir hlé en nær komust þeir ekki og bikarævintýri KA liðsins hélt því áfram við mikinn fögnuð fjölmargra stuðningsmanna liðsins í stúkunni.

Þá var komið að leiknum sem beðið hafði verið eftir, undanúrslitaleikur KA og Vals í Borgunarbikarnum sem fram fór á Akureyrarvelli fyrir framan rúmlega 1.200 áhorfendur. Strákarnir byrjuðu betur og fengu vítaspyrnu strax á 6. mínútu er brotið var á Elfari Árna Aðalsteinssyni. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði, 1-0. Orri Ómarsson jafnaði fyrir gestina með skoti utarlega úr vítateignum eftir klafs í teignum.


Bikarslagur KA og Vals var skólabókardæmi um háspennu lífshættuleik

Davíð Rúnar Bjarnason var í lykilhlutverki en hann bjargaði tvívegis af línu og átti svo sjálfur skalla í stöngina og leikurinn fór að lokum í vítaspyrnukeppni. Þar nýttu allir sínar spyrnur nema Josip Serdarusic í liði KA og féll liðið því úr leik á grátlegan hátt eftir frábæran leik gegn sterku liði Vals sem hampaði að lokum Bikarmeistaratitlinum.

Fyrstu undanúrslitaleikirnir

KA lék fyrst til undanúrslita í bikarnum sumarið 1985 en þá lék KA í næstefstu deild. Fyrst vannst 0-1 sigur á Magna og svo fylgdi 0-3 sigur á Tindastól. Því næst vannst 1-2 sigur á liði KS og í 16-liða úrslitum vannst 4-2 heimasigur á Einherja. Áfram hélt sigurgangan í bikarnum er KA vann 2-1 sigur á liði Víðis og fyrsti undanúrslitaleikur félagsins því framundan. Þar strandaði hinsvegar KA liðið í það skiptið með 2-0 tapi gegn Keflvíkingum.

Sjö árum síðar, eða árið 1992 tókst loksins aftur að ná upp góðu gengi í bikarnum en KA hafði fallið út í fyrsta leik öll árin í kjölfarið ef frá er talið sigur á Völsungum sumarið 1986. Bikarævintýrið 1992 hófst með nágrannaslag gegn Þór í 16-liða úrslitum en KA lék í efstu deild þetta sumarið.

Eftir mikinn baráttuleik tókst að sækja 2-0 sigur á Þór með mörkum Páls Gíslasonar og Gunnars Más Mássonar. Gengið í deildinni var ekki eins og menn vonuðust eftir og var gott gengi í bikarnum því góður plástur á sárin og fylgdi frábær leikur gegn Fram í 8-liða úrslitum, 2-1 sigur með mörkum Jóhanns Arnarssonar og Páls Gíslasonar, gladdi okkar menn ennfremur.


KA vann nágrannana í Þór 2-0 í Mjólkurbikarnum 1992

Sæti í sjálfum úrslitaleiknum var loks tryggt eftir stórkostlegan 2-0 sigur á ÍA þar sem Pavel Vandas og Árni Hermannsson skoruðu. Með þessum glæsta sigri er KA komið í úrslit Bikarkeppni KSÍ í fyrsta sinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband