Bikarslagur í Keflavík kl. 17:00

Fótbolti

KA sækir Keflvíkinga heim í dag í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins en leikurinn hefst klukkan 17:00. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki komast til Keflavíkur.

Á leið sinni í leik dagsins sló KA út Stjörnuna í Garðabænum en eftir að hafa lent 1-0 undir jafnaði Sebastiaan Brebels á 86. mínútu áður en Elfar Árni Aðalsteinsson tryggði sigurinn með hálfgerðu flautumarki á fjórðu mínútu uppbótartímans en markið var heldur betur umdeilt. Keflvíkingar slógu á sama tíma út sterkt lið Breiðabliks með 2-0 sigri í framlengingu.

Liðin hafa mæst tvívegis í sumar í Pepsi Max deildinni, fyrri leik liðanna sem fram fór í Keflavík lauk með 1-4 sigri KA þar sem Ásgeir Sigurgeirsson gerði tvö mörk og Hallgrímur Mar Steingrímsson og Elfar Árni Aðalsteinsson gerðu sitthvort markið. Þá mættust liðin fyrir norðan á dögunum þar sem KA vann 2-1 sigur með tveimur mörkum frá Hallgrími Mar.

Það má heldur betur segja að það ríki eftirvænting fyrir leiknum en í bikarnum skipta fyrri úrslit og deildarstaða engu. Þá hefur KA ekki tekist að komast í 8-liða úrslit bikarkeppninnar frá árinu 2015.

Sumarið 2015 lék KA í næstefstu deild og fór alla leið í undanúrslit keppninnar. Þar datt liðið á endanum út fyrir verðandi bikarmeisturum Vals eftir vítaspyrnukeppni. Á leið sinni í leikinn sló KA meðal annars út efstu deildarlið Breiðabliks og Fjölnis og vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína.

KA og Keflavík hafa fjórum sinnum mæst í bikarkeppninni, síðast sumarið 2004 er liðin mættust í sjálfum úrslitaleiknum. KA liðið náði sér ekki á strik og sá á eftir titlinum eftir 3-0 tap.

Þar áður mættust liðin sumarið 2001 en þá mættust þau í 8-liða úrslitum keppninnar. KA fór með 2-1 sigur af hólmi eftir að hafa lent 0-1 undir en þeir Elmar Dan Sigþórsson og Þorvaldur Makan Sigbjörnsson gerðu mörk KA. Raunar sló KA einnig út B-lið Keflvíkinga í 32-liða úrslitunum með 0-3 útisigri þar sem Þorvaldur Makan gerði tvö mörk og Hreinn Hringsson eitt.

KA sem lék í næstefstu deild þetta sumarið fór á endanum alla leið í úrslit bikarsins þar sem liðið þurfti að sætta sig við svekkjandi tap gegn Fylkismönnum í vítaspyrnukeppni en á sama tíma tókst liðinu að vinna sér sæti í efstu deild. Þá er gaman að segja frá því að Þorvaldur Makan varð markakóngur bikarkeppninnar þetta sumarið með 6 mörk.

Þá munum við KA men aldrei gleyma leik liðanna í Keflavík sumarið 1989 þar sem KA tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og verður svo sannarlega spennandi að sjá hvernig leikur dagsins atvikast og ljóst að það verður hart barist um áframhaldandi veru í bikarnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband