Bikarævintýrið byrjar kl. 18:00 í dag!

Fótbolti

KA hefur leik í Mjólkurbikarnum þegar lið Uppsveita mætir á Greifavöllinn í kvöld klukkan 18:00. Sæti í 16-liða úrslitum er í húfi og strákarnir okkar ætla sér klárlega alla leið í ár!

Hvetjum alla til að mæta og styðja strákana áfram í bikarnum en annars verður leikurinn í beinni á Spiideo rás KA. Kynnum það betur þegar nær dregur leik, áfram KA!

Leikurinn verður í beinni á Spiideo fyrir 6 evrur (um 900 krónur) fyrir þá sem ekki komast á leikinn:

Bein útsending frá leiknum

Uppsveitir slógu út Hamar í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins með 7-0 stórsigri á heimavelli þar sem George Razvan Chariton gerði fernu og Sergio Fuentes Jorda gerði þrennu. Liðið tryggði sér svo sæti í 32-liða úrslitum með 4-3 sigri á KÁ þar sem George Razvan Chariton, Víkingur Freyr Erlingsson, Tómas Stitelmann og Máni Snær Benediktsson gerðu mörkin.

KA fór alla leið í undanúrslit bikarsins í fyrra en það var í fyrsta skiptið frá árinu 2015 að KA fór í undanúrslit keppninnar. KA hefur í heildina átta sinnum komist í undanúrslit bikarsins og þrisvar leikið til úrslita en aldrei hampað bikarnum. Sameiginlegt lið ÍBA varð þó bikarmeistari í knattspyrnu karla árið 1969.

Annað árið í röð mætir KA liði sem við höfum aldrei mætt áður en KA lagði lið Ægis 3-0 í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í fyrra þar sem Sveinn Margeir Hauksson kom KA í 1-0 áður en Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði tvívegis.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband