Arna Sif best í Þór/KA, Sandra María í Pepsi deildinni

Fótbolti
Arna Sif best í Þór/KA, Sandra María í Pepsi deildinni
Arna var valin best hjá Þór/KA (mynd: Thorsport)

Lokahóf Þórs/KA fór fram um helgina og eins og vanalega voru þeir sem stóðu uppúr verðlaunaðir fyrir sína frammistöðu í sumar. Stelpurnar áttu frábært sumar en liðið varð Lengjubikarmeistari og Meistari Meistaranna. Þá varð liðið í 2. sæti deildarinnar og komst alla leið í 32-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið stóð vel í stórliði Wolfsburg.

Sandra María Jessen fyrirliði liðsins var kosin besti leikmaður Pepsi deildarinnar af leikmönnum deildarinnar og fékk hún verðlaunagripinn afhentan á lokahófinu auk þess sem hún var þriðja markahæst í deildinni og uppskar því bronsskóinn. Sandra Mayor var hinsvegar næst markahæst í deildinni og fékk silfurskóinn.


Sandra María Jessen besti leikmaður í Pepsi deildinni (mynd: Thorsport)

Arna Sif Ásgrímsdóttir var hinsvegar valin besti leikmaður hjá Þór/KA og Hulda Björg Hannesdóttir var valin sú efnilegasta. Helena Jónsdóttir var valin leikmaður leikmannanna og þá fékk Arna Sif Kollubikarinn en hann er veittur til minningar um Kolbrúnu Jónsdóttur sem starfaði í kvennaráði Þórs/KA.

Margrét Árnadóttir var svo valin besti leikmaður 2. flokks og María Catharina Ólafsdóttir Gros var valin sú efnilegasta.

Hjá liði Hamranna var Harpa Jóhannsdóttir valin besti leikmaður, Aldís María Jóhannsdóttir sú efnilegasta og Harpa var einnig valin leikmaður leikmannanna.

Við óskum stelpunum að sjálfsögðu til hamingju með verðlaunin og óskum þeim í leiðinni til hamingju með flott sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband