Annar stórsigur Þórs/KA á heimavelli

Fótbolti
Annar stórsigur Þórs/KA á heimavelli
Fullt hús stiga! (mynd: Sævar Geir)

Þór/KA byrjar sumarið heldur betur af krafti en liðið vann í dag 4-0 stórsigur á ÍBV á Þórsvelli. Leikurinn var liður í 2. umferð Pepsi Max deildarinnar en í fyrstu umferð vannst afar sannfærandi 4-1 sigur á liði Stjörnunnar.

Þór/KA 4 - 0 ÍBV
1-0 Margrét Árnadóttir ('18)
2-0 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('21)
3-0 Margrét Árnadóttir ('33)
4-0 Karen María Sigurgeirsdóttir ('45)

ÍBV vann 4-3 sigur á Þrótti í fyrstu umferð og var spáð góðu gengi í sumar þannig að flestir reiknuðu með krefjandi leik í dag. Þrátt fyrir rólega byrjun kom þó annað á daginn og stelpurnar unnu frábæran sigur.

Fyrsta markið kom á 18. mínútu þegar Margrét Árnadóttir lagði boltann laglega í netið eftir að Auður í marki gestanna hafði slegið fyrirgjöf Huldu Óskar út í teiginn. Margrét staðsetti sig fullkomlega og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 2-0.

Þremur mínútum síðar skallaði fyrirliðinn sjálfur, Arna Sif Ásgrímsdóttir, boltann í netið eftir góða sendingu frá Karen Maríu. Lið ÍBV reyndi hvað það gat að svara en varnarlína okkar liðs stóð vel fyrir sínu og hleypti engu í gegn.

Margrét Árnadóttir gerði svo sitt annað mark á 33. mínútu þegar hún negldi boltanum alveg útvið stöng eftir frábæran undirbúning hjá Maríu Catharinu. Staðan var því orðin erfið fyrir gestina og hún varð enn verri rétt fyrir hlé þegar Karen María Sigurgeirsdóttir gerði fjórða mark Þórs/KA með mögnuðu skoti eftir að boltanum hafði verið skallað frá marki gestanna.

Staðan var því 4-0 í hálfleik og leiknum í raun lokið. Síðari hálfleikur var bara formsatriði, bæði lið fengu sín færi en inn vildi boltinn ekki þrátt fyrir ágætar tilraunir og þrjú örugg stig í höfn.

Stelpurnar eru því með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leikina og markatöluna 8-1. Ekki nóg með að stigasöfnunin og markaskorunin sé góð þá verður að segjast að spilamennska liðsins jafnt í vörn sem sókn sé til fyrirmyndar. Það ætti því engan bilbug að finna á okkar liði þegar stelpurnar sækja Valskonur heim í næstu umferð.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband