Anna Rakel til liðs við Linköpings

Fótbolti
Anna Rakel til liðs við Linköpings
Frábært skref hjá mögnuðum leikmanni

Anna Rakel Pétursdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við sænska stórliðið Linköpings FC. Þetta er gríðarlega stórt og flott skref fyrir Önnu Rakel sem er tvítug að aldri en hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 95 leiki fyrir Þór/KA sem og 4 A-landsliðsleiki fyrir Íslands hönd.

Anna Rakel hefur verið algjör máttarstólpi á miðjunni hjá Þór/KA en hún lék sinn fyrsta leik fyrir félagið sumarið 2014 er hún var aðeins 15 ára gömul. Undanfarin þrjú tímabil hefur hún leikið alla leiki liðsins í deild og bikar en með Þór/KA varð hún Íslandsmeistari, Meistari Meistaranna sem og Lengjubikarmeistari.

Þá var Anna Rakel valin íþróttamaður KA á síðasta ári og hefur leikið 24 landsleiki fyrir unglingalandslið Íslands til viðbótar við A-landsleikina fjóra. Það segir ýmislegt um styrk hennar sem og Þórs/KA að fara frá Akureyri og beint til eins besta liðs Evrópu og verður mjög gaman að fylgjast með henni í Svíþjóð.

Við óskum henni hjartanlega til hamingju með nýja samninginn sem og góðs gengis í þessu frábæra liði en Linköpings varð sænskur meistari árið 2017 og hefur undanfarin fimm ár komist í bikarúrslitaleikinn. Auk þess hefur liðið þrívegis komist í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á undanförnum árum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband