Anna Rakel til liðs við IK Uppsala

Fótbolti
Anna Rakel til liðs við IK Uppsala
Íslandsmeistari með Þór/KA 2017 (mynd: Sævar Geir)

Anna Rakel Pétursdóttir hefur skrifað undir samning við sænska liðið IK Uppsala og mun því leika með því á komandi tímabili. Anna Rakel gengur til liðs við Uppsala frá Linköpings en hún lék 18 leiki með liðinu á nýliðinni leiktíð þar sem Linköping endaði í 5. sæti.

Það er ljóst að þetta er mjög spennandi skref hjá Önnu Rakel en IK Uppsala var stofnað árið 2017 og er mikill kraftur í félaginu. Liðið tryggði sér sæti í efstu deild á síðustu leiktíð og verður því nýliði í Damallsvenskan á komandi leiktíð.

Í samtali við heimasíðu Uppsala segist Anna Rakel vera mjög spennt fyrir félaginu og telur þetta vera góðan stað sem og félag fyrir sig til að halda áfram að þróa sinn leik en hún er 21 árs gömul. Á heimasíðu Uppsala er sagt að með komu Önnu Rakelar sé leikmannahópurinn klár fyrir komandi baráttu í efstu deild.

Liðið leikur á glæsilegum nýjum leikvangi sem er fyrsti leikvangurinn í Svíþjóð sem er löggiltur fyrir LGBT samfélagið. Við óskum Önnu Rakel til hamingju með félagsskiptin og óskum henni góðs gengis.

Í sumar fékk heimasíðan Önnu Rakel í ansi ítarlegt og skemmtilegt spjall sem við mælum eindregið með að kíkja á með því að smella hér.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband