Alfreð Gíslason gerður að heiðursfélaga KA

Almennt
Alfreð Gíslason gerður að heiðursfélaga KA
Hrefna Torfadóttir formaður KA með Alla í Hofi í gær.
Í gær þann 11. júlí afhenti Hrefna G. Torfadóttir, formaður KA, Alfreð Gíslasyni skjal til staðfestingar á ákvörðun aðalstjórnar KA að gera hann að heiðursfélaga KA. Þessi afhending fór fram við athöfn sem Íþróttaráð Akureyrar hélt í Hofi. Þar afhenti einnig Tryggvi Gunnarsson, formaður Íþróttaráðs, Alfreð heiðurviðurkenningu Afrekssjóðs og Íþróttaráðs Akureyrar og Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ sæmdi Alfreð gullmerki Handknattleikssambands Íslands.


Handboltavagga Alfreðs Gíslasonar, eða Alla eins og við köllum hann, var hjá Knattspyrnufélagi Akureyrar, KA. Þar byrjaði hann feril sinn sem ungur drengur, upp yngri flokkana og upp í meistaraflokk sem hann lék með um árabil.  Þá var æft og keppt í Skemmunni, eins og það hús var kallað, ekki kannski fullkomnasta eða besta hús sem völ var á, en ekki stóð það Alla fyrir þrifum. Félögum hans í meistaraflokki á þeim árum, þeim sem eldri voru, duldist ekki að þar var á ferðinni mikill íþróttamaður sem myndi ná langt. Enda sýnir afrekaskrá hans það.

Árið 1991 kom Alfreð aftur til KA, eftir dvöl erlendis við handboltaiðkun, og tók við þjálfun meistaraflokksins ásamt því að leika með honum líka. Það var þó alls ekki það eina sem hann tók sér fyrir hendur hjá KA heldur var hann meðal annars einnig framkvæmdastjóri KA.

Alfreð gjörbreytti með komu sinni til KA landslaginu í handboltanum hjá félaginu. Á þessum tíma vaknaði geysilegur áhugi meðal stuðningsmanna KA og víðar fyrir handknattleik og var KA heimilið alltaf  troðfullt og rúmlega það á leikjum liðsins. Meðal þess sem Alfreð afrekaði var að gera KA að Íslandsmeisturum árið 1997. Sá titill var bæði langþráður og afar kærkominn.

Þrjú ár í röð spilaði KA til úrslita um bikarmeistaratitil og vann bikarinn árin 1995 og 1996. Bikarmeistaratitillinn árið 1995 var fyrsti stóri titill KA í handknattleik.

Árin 1995 og 1996 spilaði KA til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en það var svo ekki fyrr en 1997, eins og áður sagði að sá titill var í höfn.

Alli lagði grunninn, eins og sjá má af þessari upptalningu, að mikilli uppbyggingu handknattleiks hjá KA og áhrif hans náðu alla leið niður í yngstu flokkana og uppúr. Undir stjórn Alfreðs var meistaraflokkur karla í toppbaráttunni á öllum vígstöðvum mörg ár í röð og árangur liðsins batnaði ár frá ári þann tíma sem Alfreð þjálfaði það.

Alli fór svo frá KA haustið 1997 til Þýskalands til að þjálfa í sterkustu deild í heimi og árangur hans þar er ótrúlegur.  Alfreð þjálfaði einnig landslið Íslendinga eins og öllum er kunnugt og undir hans stjórn lagði landslið okkar Svíagrýluna að velli og hefur hún ekki risið upp síðan.

Þó Alli sé búinn að búa erlendis öll þessi ár hefur tryggð hans við gamla félaga og gamla félagið hans ekki rofnað.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband