Aftur vann KA bæjarslaginn í Höllinni!

Handbolti
Aftur vann KA bæjarslaginn í Höllinni!
Bærinn er áfram gulur! (mynd: Þórir Tryggva)

KA sótti nágranna sína í Þór heim í Olísdeild karla í dag en liðin mættust nýverið í bikarkeppninni þar sem KA fór með 23-26 sigur eftir ansi krefjandi og erfiðan leik. Leikjaálagið hefur verið svakalegt að undanförnu en leikurinn í dag var sá þriðji á sex dögum hjá strákunum og ljóst að erfitt verkefni biði þeirra í Höllinni.

Hvort að einhver þreyta hafi verið í okkar liði í upphafi leiks skal ég ekki segja en það voru allavega Þórsarar sem hófu leikinn mun betur. Eftir um kortérsleik var staðan orðin 8-4 fyrir Þór og strákarnir í raun á hælunum. Jónatan og Sverre tóku þá leikhlé og í kjölfarið var allt annað að sjá til KA liðsins.

Næstu fjögur mörk leiksins voru okkar en Áki Egilsnes fór fyrir markaskoruninni í upphafi og gerði meðal annars fimm af fyrstu sex mörkum KA liðsins. Áfram leiddu Þórsarar en allt annar taktur var kominn í leik okkar liðs sem hélt í við heimamenn. Staðan var jöfn 12-12 er flautað var til hálfleiks en strákarnir hefðu með réttu átt að leiða í hléinu en mark Andra Snæs Stefánssonar á lokasekúndu leiksins var ekki dæmt gilt þrátt fyrir að boltinn hafi farið í markið áður en lokaflautið gall.

Í upphafi síðari hálfleiks tóku strákarnir svo frumkvæðið en fram að því hafði KA aðeins leitt í stöðunni 1-2. Þórsarar voru þó aldrei langt undan og þeir komust yfir í 18-17 um miðbik síðari hálfleiks og aftur í 19-18 er rétt rúmar tíu mínútur lifðu leiks.

Varnarleikur KA liðsins hafði verið í aðalhlutverki í leiknum til þessa og ekki breyttist það á örlagastundu heldur bættu strákarnir bara í auk þess sem Nicholas Satchwell átti mjög góðan síðari hálfleik í markinu. Úr varð að Þórsarar skoruðu ekki mark síðustu tíu mínútur leiksins og aftur tókst KA liðinu því að snúa stöðunni sér ívil.

Sóknarleikurinn gekk hinsvegar brösuglega og þegar tókst að galopna vörn heimamanna reyndist Jovan Kukobat okkur erfiður í rammanum. Staðan var 19-20 er lokamínútan rann upp og Þórsarar með boltann. Eftir leikhlé þeirra var dæmdur á þá ruðningur og rétt eins og í bikarleiknum á dögunum var það Andri Snær Stefánsson sem fékk það hlutverk að innsigla sigurinn sem hann og gerði og 19-21 sigur KA þar með staðreynd!

Tvö gríðarlega mikilvæg stig þar með í hús en það er alveg ljóst að þetta var langt í frá besti handboltaleikur sem strákarnir okkar hafa boðið upp á eins og vill reyndar iðulega verða í bæjarslagnum. Leikmenn beggja liða virtust hálf bensínlausir er líða tók á leikinn sem er ansi skiljanlegt vegna leikjaálagsins sem nú er í deildinni.

Mikið hefur verið rætt um karakterinn í okkar liði að undanförnu og má svo sannarlega segja að hann hafi skilað sigrinum í dag. Álagið heldur hinsvegar áfram á liðinu því strax á fimmtudag tekur KA á móti Haukum og á sunnudag fer liðið suður og mætir Fram.

Með sigrinum er KA nú með 12 stig í 5. sæti deildarinnar og hefur leikið einum leik minna en flest liðin í kring en leikurinn gegn Haukum á fimmtudag er leikurinn sem liðið á inni.

Áki Egilsnes var markahæstur í dag með 7 mörk auk þess sem hann átti ófáar stoðsendingar. Árni Bragi Eyjólfsson gerði 5 mörk og nýtti öll þrjú vítaköst liðsins. Andri Snær Stefánsson gerði 3, Patrekur Stefánsson 2 og þeir Jón Heiðar Sigurðsson, Sigþór Gunnar Jónsson, Einar Birgir Stefánsson og Allan Norðberg gerðu allir eitt mark. Nicholas Satchwell varði 12 skot í markinu þar af eitt dýrmætt vítakast seint í leiknum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband