Ævarr Freyr Bikarmeistari með Odense

Blak
Ævarr Freyr Bikarmeistari með Odense
Ævarr (til hægri) með bikarinn ásamt Galdri Mána

Ævarr Freyr Birgisson varð um helgina danskur Bikarmeistari í blaki með liði Odense en þetta er þriðja árið í röð sem Ævarr hampar titlinum. Ævarr er auk þess ríkjandi Danmerkurmeistari en Odense hefur unnið titilinn undanfarin tvö ár og er í harðri baráttu á toppnum í vetur.

Lið Odense lenti 0-2 undir gegn liði Gentofte í úrslitaleiknum en tókst að knúa fram oddahrinu og hömpuðu að lokum titlinum eftir 15-9 sigri í henni. Ævarr hefur iðulega leikið sem kantsmassari en í vetur hefur hann leikið sem libero eða frelsingi og staðið sig frábærlega í nýrri stöðu.

Ævarr Freyr er uppalinn hjá KA og varð meðal annars Bikarmeistari með KA þrívegis, 2015, 2016 og 2018. Hann var í desember kjörinn blakmaður ársins hjá Blaksambandi Íslands og var það í fjórða skiptið sem hann hlaut nafnbótina.

Við óskum honum innilega til hamingju með titilinn og fylgjumst áfram stolt af framgöngu hans á blakvellinum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband