Íslandsmót fullorðinna í júdó, enn einn titill hjá Helgu.

Íslandsmót fullorðinna í júdófór fram í Reykjavík um helgina.  KA átti 10 keppendur á mótinu.  Bestum árangri náði Helga Hansdóttir, en hún varð Íslandsmeistari í -57kg. flokki kvenna.  Frammistaða KA á mótinu var eftirfarandi:
Helga Hansdóttir:  Hún keppti í -57kg. flokki og sigraði örugglega. Það dugði henni þó ekki svo hún keppti einnig í opnum flokki kvenna.  Þar var hún langléttasti keppandinn en náði samt að komast í bronsglímu sem hún tapaði eftir hetjulega baráttu. 

Fiona Ýr Sigurðardóttir:  Hún keppti í -63kg. flokki og vann til bronsverðlauna.  Fiona byrjaði að æfa júdó síðasta haust svo þessi árangur hennar er frábær. 

Eyjólfur Guðjónsson:  Hann keppti í -60kg.  Hann var talinn sigurstranglegur en tapaði úrslitaglímunni er hann var hengdur svo hressilega að hann sofnaði. 

Bergþór Steinn Jónsson:  Eins og Eyjólfur var hann talinn sigurstranglegur.  Veikindi setti strik í reikninginn, hann var fárveikur og ekki í keppnishæfu ástandi en vann þó til bronsverðlauna.

Svanur Hólm Steindórsson:  Svanur keppti síðast á Íslandsmóti 1996, hér var því um endurkomu að ræða.  Hann keppti í -66 kg. flokki og glímdi vel og komst í báráttu um bronsið sem hann tapaði eftir mikla baráttu.

Hans Rúnar Snorrason:  Hann keppti í -73 kg.  Hann komst í undanúrslit en tapaði þar og keppti því um bronsverðlaun sem hann vann örugglega.  Hans er að verða 36 ára gamall en var þó "aðeins" þriðji elsti keppandinn í flokknum.  Þrátt fyrir aldur var Hans mjög nærri því að komast í úrslitaglímuna á mótinu.

Adam Brands Þórarinsson:  Þetta var hans fyrsta íslandsmót fullorðinna, en Adam er margfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkum.  Hann glímdi mjög vel og komst í bronsglímu sem hann tapaði.

Valbjörn Helgi Viðarsson:  Líkt og hjá Svani var þarna um endurkomu að ræða því Valbjörn keppti síðast á íslandsmóti 1993.  Hann barðist vel og gaf ekkert eftir en komst þó ekki í baráttu um verðlaun.

Ingþór Örn Valdimarsson:  Hann keppti í -90kg. flokki og komst í undanúrslit.  Þar tapaði hann og glímdi því um bronsverðlaun sem hann vann.  Hann keppti einnig í opnum flokki og komst þar einnig í undanúrslit en sagan endurtók sig svo önnur bronsverðlaun voru niðurstaðan.  Aðeins herslumun vantar upp á að Ingþór sé í úrslitaglímum á þessum mótum.

Agnar Ari Böðvarsson: Hann keppti í -100kg.  Hann varð í 4. sæti í þeim flokki en hefði átt að komast sæti ofar.  Hann bætti það upp í opnum flokki er hann vann til bronsverðlauna eftir að hafa lagt að velli keppanda sem var 40kg. þyngri.

KA keppti einnig í sveitakeppni karla og vann þar til bronsverðlauna.