3 gull og fullt af silfri á Íslandsmóti 15-19 ára í júdó.

Íslandsmót 15-19 ára fór fram í Reykjavík um helgina.  KA átti 8 keppendur á mótinu.  Árangur þeirra varð eftirfarandi:
Í piltaflokki unnu KA-menn illu heilli of mörg silfurverðlaun.  Í +100kg. flokki vann Karl Stefánsson til silfurverðlauna.  Þetta var fyrsta mót Karls í þessum aldursflokki og því voru þessi silfurverðlaun fín.
Í -100kg. flokki keppti Steinar Eyþór Valsson.  Hann lenti í fyrstu viðureign gegn mjög öflugum andstæðingi frá Selfossi og tapaði.  Hann vann síðan allar viðureignir sínar eftir það og lenti í 2. sæti.  Steinar glímdi svo í sveitakeppninni gegn þessum sama andstæðingi og sigraði þá örugglega.  Þarna hefði því gullið verið ásættanlegra.
Í -81kg. flokki átti KA tvo keppendur, Adam Brands Þórarinsson og Pétur Þórólfsson.  Pétur var að keppa á sínu fyrsta móti og stóð sig afar vel, komst í undanúrslit en tapaði þar mjög naumlega.  Adam er hins vegar reyndur mjög og var talinn sigurstranglegastur í þessum flokki.  Allt virtist stefna í öruggan sigur hans en í úrslitaglímunni gerði hann slæm mistök og tapaði og því fóru gullverðlaun forgörðum sem á venjulegum degi hefði átt að vera okkar.
Í -73kg. flokki keppti Bjarki Geir Benediktsson.  Bjarki átti sinn langbesta dag og vann til silfurverðlauna sem var mjög vel gert.
Strákarnir kepptu svo í sveitakeppni og þar var fyrirfram ljóst að á róðurinn yrði erfiður vegna þess að þeir voru aðeins 3 í sveitinni en fullmönnuð sveit er með 5 keppendur.  Þeir byrjuðu því alltaf 2-0 undir í hverri viðureign.  Þeir gerðu frábærlega og komust í úrlistaviðureign gegn JR en töpuðu þeirri viðureign.

Í stúlknaflokki gekk mun betur þó svo að óvelkomið silfur hafi líka verið þar.  Þær stöllur Fiona Ýr Sigurðardóttir og Kristín Ásta Guðmundsdóttir kepptu upp fyrir sig um einn þyngdarflokk til að fá fleiri mótherja.  Þær eru báðar í -63kg. flokki en kepptu í -70kg. Það eru ekki margir keppendur sem gera slíkt, hvað þá að raða sér í tvö efstu sætin eins og þær gerði.  Fiona sigraði og Kristín varð í öðru sæti. 
Helga Hansdóttir keppti í -57kg. flokki.  Hún hefur verið ósigrandi í þessum flokki síðasta árið.  Nú var hins vegar fyrrverandi Íslandsmeistari í þessum flokki, Ásta Lovísa heitir hún, mætt á svæðið eftir árs fjærveru erlendis.  Þær glímdu til úrslita og var þar um svakalega viðureign að ræða sem fór í framlengingu og gullskor.  Svo fór að Helga tapaði og varð að sætta sig við silfur.
Stelpurnar kepptu svo allar í opnum flokki.  Þar mætti Helga aftur Ástu Lovísu og allt fór á sömu lund.  Í næstu umferð mætti Ásta Lovísa Kristínu Ástu.  Sú viðureing fór í framlengingu og gullskor en nú var það okkar stúlka, Kristín Ásta, sem hafði betur.  Hinum megin á keppnistöflunni vann Fiona Ýr allar sínar viðureignir og mætti því Kristínu Ástu í úrslitaviðureign. Fiona hafði þar betur og var þá orðinn tvöfaldur Íslandsmeistari og mótið samt ekki búið.  Helga vann svo til bronsverðlauna og því enduðu stelpurnar í 3 efstu sætunum sem er frábær árangur.
Stelpurnar kepptu svo í sveitakeppninni og fullkomnuðu daginn með sigri þar.