Stelpurnar á yngra ári í 4. flokki kvenna hjá KA/Þór mættu ÍR í undanúrslitum í KA heimilinu á sunnudeginum. Fyrri hálfleikurinn var ágætlega spilaður á köflum hjá stelpunum en óákveðni í sókninni og einbeitingaleysi í vörninni voru þó áberandi heilt yfir. Þrátt fyrir að vera ekki að spila sinn besta leik í fyrri hálfleik fóru stelpurnar inn með 12-9 forystu. Í seinni hálfleik var ljóst frá fyrstu mínútu að þær ætluðu sér í Höllina. Vörnin lokaðist, Arnrún hrökk í gang í markinu og sóknarleikurinn varð miklu beittari. Forskotið óx jafnt og þétt og í raun bara spurning um hversu stór sigurinn yrði. Það fór svo að stelpurnar lönduðu glæsilegum 26-16 sigri fyrir framan dygga áhorfendur á pöllunum.
Seinni hálfleikurinn var virkilega vel spilaður hjá stelpunum og skiluðu allar frábærri varnarvinnu sem skilaði sér í góðum hraðaupphlaupsmörkum. Sóknarlega voru þær mjög beittar í seinni hálfleik og voru duglegar að opna fyrir hvor aðra. Aldís Heimisdóttir fór fyrir sínu liði í dag og skoraði 13 mörk en næst á eftir henni var Una Kara með 9 mörk í öllum regnboganslitum.
Stelpurnar eru því komnar alla leið í Höllina og mæta þar liði ÍBV í bikarúrslitum á sunnudaginn næsta sem er vægast sagt glæsilegur árangur og þar ætla stelpurnar sér að sjálfsögðu ekkert annað en sigur.
Bikarinn heim.
Eldra ár 4. flokks á síðan leik í undanúrslitum klukkan 17:20 á miðvikudaginn í KA heimilinu gegn erkifjendunum í HK. Maður á bágt með að trúa því að eldra árið hafi einhvern áhuga á að sitja heima um næstu helgi á meðan yngra árið fær að upplifa stemminguna í Höllinni. Ljóst er að þetta verður hörkuleikur og eflaust mikil skemmtun á að horfa.
Það er því ekki til nein afsökun fyrir því að mæta ekki í KA heimilið og hvetja þær í úrslitin.