Stelpurnar á yngra ári KA/Þórs mættu HK í KA heimilinu í dag, sunnudag. HK stelpur byrjuðu leikinn af krafti og komust í 0-3 áður en heimastúlkur ákváðu að byrja þennan leik. Leikurinn var í járnum framan af en HK stelpur alltaf skrefi á undan. Þegar líða fór á fyrri hálfleikinn fóru heimastúlkur að finna taktinn og náðu tökum á leiknum smám saman. Hagur HK stúlkna versnaði þegar leikmaður HK gerði sig seka um ljótt brot í hraðaupphlaupi og fékk verðskuldað rautt spjald fyrir.
Staðan í hálfleik 10-7 fyrir KA/Þór. Seinni hálfleikur byrjaði rólega, ekkert skorað fyrstu mínúturnar fyrr en að KA/Þór braut ísinn og komst í 11-7. Eftir það réðu heimastúlkur leiknum. Vörnin frábær og Arnrún í einhverskonar óargadýrs ham sem át öll þau skot sem náðu í gegn. Munurinn jókst smám saman og náðu heimastúlkur mest átta marka forustu áður en HK náði að klóra í bakkann í lokin. Lokastaða 18-12 fyrir KA/Þór og frábær sigur staðreynd.
Sóknarlega gekk boltinn hægt og þær hafa oft sýnt betri takta þeim meginn á vellinum. Hins vegar spiluðu þær öruggt og af yfirvegun og náðu að búa sér til fjölda mörg góð færi. Varnarlega voru þær stórkostlegar. Vörnin þétt og allar á fullu allan tímann. Aldís Heimisdóttir stjórnaði vörn og sókn af stakri snilld og virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikið hún hefur vaxið í stöðu leikstjórnanda á síðustu mánuðum. Þegar hún beit það í sig að taka af skarið héldu henni engin bönd. Fyrir utan að skora fimm mörk í leiknum fiskaði hún fjögur víti og sendi sex stoðsendingar. Þar fyrir utan skilaði hún virkilega góðu dagsverki í vörninni líkt og allar aðrar í liðinu.
Frammistaða Arnrúnar í markinu er svo kapítuli út af fyrir sig en hún fór vægast sagt á kostum og endaði með 19 bolta varða en einungis 12 mörk á sig sem gerir rúmlega 61% markvörslu.
Mörk KA/Þórs: Aldís Heimisdóttir 5 mörk, Una Kara Vídalín 4 mörk, Lísbet Gestsdóttir 4, Margrét Árnadóttir 2, Helena Arnbjörg, Þórgunnur Þorsteinsdóttir og Kristín Jóhannsdóttir 1 mark hver.
Undanúrslit í bikar er það heillin hjá báðum liðum 4. flokks kvenna sem er frábær árangur og aðeins einn leikur sem stendur í vegi fyrir þeim til að komast í Höllina.
Nú fer bikarinn í smá pásu og við tekur deildarkeppnin aftur þar sem bæði lið eru í toppbaráttunni og ætla sér stóra hluti þar einnig.