Yfirlýsing frá Handknattleiksdeild KA

Handbolti

Handknattleiksdeild KA vill koma því á framfæri að vel athuguðu máli sem og eftir samtöl við málsmetandi aðila innan handknattleikshreyfingarinnar og skoðun á lögum og reglum HSÍ er talið ljóst að mistök hafi verið gerð í lok leiks KA og Stjörnunnar fimmtudagskvöldið 31. október sl. er varðar meðhöndlun á því þegar þjálfari KA hugðist taka leikhlé á lokamínútu leiksins.

Um er að ræða afdrifarík mistök sem mögulega kostuðu KA sigur í leiknum en ekkert virðist benda til þess að sú ákvörðun að dæma boltann af KA og reka leikmann af velli sé rétt auk þess að réttur liðsins til að taka síðasta leikhlé sitt í leiknum var tekinn af liðinu.

Hinsvegar er ekkert í lögum HSÍ sem heimilar að spila síðustu sekúndur leiksins að nýju og fyrir því liggja dómafordæmi frá fyrri árum. Handknattleiksdeild KA mun því una niðurstöðu leiksins en harmar þó þau mistök sem gerð voru og vonar að allir innan handknattleikshreyfingarinnar dragi af þeim lærdóm.

Áfram handbolti og áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is