„Verðum að fá fulla Höll gegn FH“ segir Atli Hilmarsson

Það er gríðarlega mikilvægur leikur á mánudagskvöldið þegar Akureyri tekur á móti toppliði deildarinnar FH og hefst leikurinn klukkan 19:00 í Íþróttahöllinni.
Síðast þegar liðin mættust í N1 deildinni lauk leiknum með jafntefli 29 -29 í Hafnarfirði.
Áhorfendur stóðu sig frábærlega í síðasta heimaleik gegn HK og nú er enn meira undir, mætum öll og tökum með okkur vini og vandamenn og gerum frábæra skemmtun á mánudagskvöldið.


„Allir leikirnir sem eftir eru verða í raun úrslitaleikir og við spilum ekki annan svona leik eins og gegn Haukum. Núna þurfum við á öllum stuðningi að halda og verðum að fá fulla Höll gegn FH, skapa stemmingu og vinna þennan leik.“ Segir Atli Hilmarsson í viðtali við Þröst Erni Viðarsson í Vikudegi.


Atli sendir skilaboð til sinna manna í síðasta heimaleik gegn HK

„Það kemur ekkert annað til greina og ég veit að strákarnir í liðinu hefðu helst viljað spila strax daginn eftir Haukaleikinn til að bæta þetta upp. Ég fékk spurningu frá einum leikmanni eftir þann leik hvort það yrði ekki skotæfing daginn eftir. Þannig að þeir eru meðvitaðir um að skotnýtingin þarf að komast í lag.

Það er svo sem ekkert svakalegt þótt við höfum tapað einum leik og ekkert stórvægilegt sem þarf að laga. Við þurfum að bæta skotnýtinguna og gerum við það þá eru okkur allir vegir færir. Þetta er í okkar höndum að komast í úrslitakeppnina og við þurfum bara að vinna okkar leiki og ætlum að gera það,“ segir Atli Hilmarsson.