Akureyri byrjaði tímabilið með sannfærandi sigri á Íslandsmeisturum Fram í fyrstu umferð deildarinnar sem var leikin í síðustu
viku.
Nú á laugardaginn heldur meistaraflokkur liðsins í sinn fyrsta útileik þegar liðið mætir bikarmeisturum ÍR á heimavelli
þeirra í Austurbergi. Leikurinn verður sýndur beint á RÚV.
Fjáröflunarátak fyrir komandi leiktímabil
Akureyri Handboltafélag er án efa eitt af stóru liðunum í íslenskum
handbolta. Félagið heldur úti meistaraflokki ásamt tveimur liðum í 2. flokki karla. Við búum við þær aðstæður að
þurfa að ferðast mest og lengst allra liða í úrvalsdeild en allir okkar útileikir fara fram á höfuðborgarsvæðinu eða í
Vestmannaeyjum. Ferðakostnaður liðsins er því gífurlega mikill og fyrir liggur að hann verður töluvert hærri nú heldur en
síðastliðið tímabil.
Leikmannahópurinn er metnaðarfullur og ætlar sér stóra hluti í vetur og halda þar með uppi merkjum handboltans á landsbyggðinni.
Það er kostnaðarsamt að taka þátt í deild þeirra sterkustu og því leitum við aðstoðar allra velunnara okkar með
fjáröflun. Ólíkt öðrum íþróttafélögum þá eru engir skráðir félagsmenn og þar með
greiðir enginn félagsgjald til Akureyrar Handboltafélags. Við höfum því valið þá leið að senda Akureyringum styrktarbeiðni sem
birtist sem valgreiðsla í heimabankanum þínum að upphæð kr. 3.000.-
Í heimabankanum þínum birtist greiðslan væntanlega líkt og hér er sýnt...
En í heimabanka Landsbankans þarf trúlega að velja að gera slíkar valkvæðar greiðslur sýnilegar. Það er gert með því
að smella á Greiðslur og síðan á Ógreiddir reikningar eins og sést á myndinni hér að neðan.
Það er enginn skuldbundinn að greiða beiðnina en margt smátt gerir eitt stórt og allt hjálpar til.
Með fyrirfram þökk fyrir veittan stuðning,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.