Handboltinn er svo sannarlega kominn á fullt en bæði karlalið KA og kvennalið KA/Þórs eiga útileik í Olís deildunum í dag. Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á leiki dagsins en fyrir ykkur sem ekki eruð fyrir sunnan þá eru jákvæðar fréttir því báðir leikir verða í beinni.
KA/Þór sækir Hauka heim að Ásvöllum klukkan 16:00 en þetta er annar leikur liðsins í vetur eftir 6 marka tap gegn Val í fyrsta leik. Haukar unnu hinsvegar 9 marka sigur á nýliðum HK og ljóst að stelpurnar eiga krefjandi leik fyrir höndum. Leikurinn verður í beinni á Haukar-TV.
Karlalið KA er hinsvegar á toppi deildarinnar eftir ótrúlega byrjun í fyrstu tveimur leikjum liðsins. Strákarnir unnu 28-27 sigur á Akureyri í fyrsta leiknum og svo fylgdi 31-20 stórsigur á Haukum í kjölfarið. Í dag mætir liðið svo Fram í spennandi leik í Safamýrinni klukkan 18:00 en Framarar hafa sýnt flotta frammistöðu í fyrstu leikjunum þrátt fyrir að vera einungis með 1 stig. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.