Það er mikið undir í leik Gróttu og KA/Þór á miðvikudaginn þegar liðin mætast á Seltjarnarnesinu. Bæði lið eiga eftir að spila tvo leiki í deildinni þar sem Grótta er í 6. sæti með 9 stig en KA/Þór í því 7. með 8 stig. Efstu sex liðin fara síðan í úrslitakeppnina þannig að allar líkur eru á því að sigurliðið í þessum leik fái sæti í úrslitakeppninni.
„Við stillum þessu upp þannig að við séum að fara í úrslitaleik,“ segir Guðlaugur Arnarsson, þjálfari KA/Þór í samtali við Vikudag. „Við eigum heimaleik gegn Val í lokaumferðinni og þar af leiðandi liggur okkar möguleiki að komast áfram í því að vinna Gróttu. Þessi leikur verður eflaust stál í stál. Við töpuðum með einu marki gegn þeim á heimavelli fyrr í vetur, í leik sem við vorum mjög ósátt við.
Við þurfum að leggja allt í sölurnar í þessum leik og reyna að laða fram það besta hjá okkur, hvort sem er vörn, sókn eða markvarsla,“ segir Guðlaugur.
Það var tekið á því þegar liðin mættust í KA heimilinu í janúar