Úrslitakeppnin byrjar hjá stelpunum í KA/Þór

Handbolti

KA/Þór hefur leik í úrslitakeppninni í kvöld þegar stelpurnar okkar sækja Stjörnuna heim klukkan 18:00 í TM-Höllinni. Vinna þarf tvo leiki til að fara áfram í undanúrslitin og stelpurnar eru að sjálfsögðu klárar að byrja vel!

KA/Þór endaði í 6. sæti Olísdeildarinnar og mætir því Stjörnunni sem endaði í 3. sæti, eins og áður segir þarf að vinna tvo leiki til að fara áfram í næstu umferð og eru Garðbæingar með heimaleikjarétt og byrja því á heimavelli. Heimaleikur KA/Þórs verður á fimmtudaginn klukkan 17:00 og ansi mikilvægt að nýta þann leik vel.

Liðin mættust þrisvar í deildarkeppninni í vetur, tvívegis var leikið í Garðabænum og vann Stjarnan báða leikina. En KA/Þór vann góðan sigur í KA-Heimilinu og ljóst að afar spennandi einvígi er framundan.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta í TM-Höllina í kvöld og styðja stelpurnar til sigurs en fyrir þá sem ekki komast í Garðabæinn er leikurinn í beinni á Stöð 2 Sport, áfram KA/Þór!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is