Nú á miðvikudagskvöldið mætti Selfoss í heimsókn til að leika við stelpurnar í KA/Þór í 3. flokki kvenna í handbolta. Selfoss er í 3. sæti deildarinnar en KA/Þór í því 7. svo það var búist við erfiðum leik. Liðin höfðu mæst einu sinni áður í vetur en þá sigarði Selfoss með yfirburðum þrátt fyrir að KA/Þór hefði náð að bíta allhressilega frá sér í síðari hálfleik í þeim leik.
Fyrri hálfleikurinn nú á miðvikudaginn byrjaði jafn og spennandi en voru þó Selfyssingar ávallt skrefinu á undan. KA/Þór náði þó ávallt að jafna metin framan af fyrri hálfleik en þá tók lið Selfoss kipp því þær komust fjórum mörkum yfir og náðu að halda þeirri forustu í um 10 mínútur en rétt áður en hálfleiksflautan gall náði KA/Þór að minnka muninn í þrjú mörk og þannig stóðu leikar í hálfleik, 11-14, Selfossi í vil.
KA/Þór mætti gríðarlega vel inn í síðari hálfleikinn og náði að jafna metin í 15-15 og komust svo loksins yfir í stöðunni 19-18. Leikurinn var æsispennandi en Selfoss náði ávallt að jafna metin. KA/Þór hélt áfram að leiða leikinn og þegar um 10 mínútur voru eftir var staðan 21-20, KA/Þór í vil. Þá fengu heimastúlkur tvo klaufalega brottrekstra með tiltölulega stuttu millibili sem urðu til þess að Selfoss náði aftur undirtökum í leiknum og höfðu að lokum þriggja marka sigur 22-25.
Tapið hafði engin áhrif á stöðu KA/Þórs í deildinni og hefði í raun sigur haft sömu áhrif. Liðið er fast í 7. sæti deildarinnar þegar deildarkeppninni lýkur hjá liðinu. Það er því ljóst að KA/Þór nær ekki að tryggja sér sæti í svokallaðri A-úrslitakeppni, heldur fer sem efsta lið inn í B-úrslitakeppnina og ætlar sér ekkert nema sigur þar.
Markaskor KA/Þórs í leiknum var svona:
Arna Kristín Einarsdóttir 8, Laufey Lára Höskuldsdóttir 5, Stefanía Theodórsdóttir 4, Birta Fönn Sveinsdóttir 2, Rakel Ösp Sævarsdóttir 2, Aldís Anna Höskuldsdóttir 1.
Í markinu átti Lína Aðalbjargardóttir góðan leik og varði 16 skot.