U-20 landslið Íslands tryggði HM sætið

Frábær árangur hjá stelpunum (mynd: HSÍ)
Frábær árangur hjá stelpunum (mynd: HSÍ)

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri tryggði sér um helgina sæti á HM í Ungverjalandi í sumar. Undankeppnin fór fram í Vestmannaeyjum en ásamt Íslandi léku Litháen, Makedónía og Þýskaland.

Í fyrsta leiknum vann Ísland 35-20 stórsigur á Makedóníu en staðan var 18-12 í hálfleik. Næsti leikur var gegn sterku liði Þjóðverja og var jafnt í hálfleik 14-14, en gestirnir fóru á endanum með 24-25 sigur af hólmi.

Það var því ljóst að lokaleikurinn gegn Litháen væri hreinn úrslitaleikur um sæti á HM en efstu tvö liðin í riðlinum fara áfram. Ekki þurfti að hafa áhyggjur af því að stelpurnar höndluðu ekki pressuna enda byrjaði liðið leikinn gríðarlega vel og náði strax góðu forskoti. Á endanum vannst 32-18 sigur og liðið því á leiðinni á HM í sumar.

Í liðinu eru þær Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir leikmenn KA/Þórs og óskum við þeim og að sjálfsögðu liðinu öllu til hamingju með áfangann.