Arnór Ísak Haddsson og liðsfélagar hans tryggðu sér í morgun sæti í úrslitaleik Vrilittos mótsins í Grikklandi eftir spennuþrunginn 25-24 sigur á Ísrael. Ísrael hafði unnið hinn riðilinn með því að vinna alla leiki sína en strákarnir sýndu mjög flotta frammistöðu og leika um gullið.
Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og leiddi leikinn, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 10-7 og í kjölfarið náðist 5 marka forskot, 14-9. Ísraelska liðið náði þó að laga stöðuna í 15-12 sem voru hálfleikstölur.
Svo virtist sem að Ísraelska liðið væri komið með tak á leiknum því ekki leið á löngu uns staðan var orðin jöfn 15-15 og komin mikil spenna í loftið. Strákarnir tóku aftur við sér og leiddu leikinn áfram en munurinn varð aldrei meiri en 2 mörk.
Þegar um 3 mínútur lifðu leiks komust Ísraelar á endanum yfir 23-24 en næstu tvö mörk voru íslensk og staðan því 25-24 fyrir Ísland þegar lokamínútan hófst. Strákarnir sýndu mikinn aga þegar þeir fengu hvert aukakastið á fætur öðru og sigldu sigrinum í höfn.
Íslenska liðið leikur því um gull á mótinu og mætir annaðhvort Króatíu eða Grikkjum í úrslitaleiknum. Arnór Ísak gerði 3 mörk í leiknum