Íslenska landsliðið í handbolta skipað leikmönnum yngri en 16 ára mætti Króatíu í úrslitaleik Vrilittos mótsins í Grikklandi í dag. Liðin voru saman í riðli fyrr í keppninni og vann Ísland viðureign liðanna í riðlakeppninni 26-25. Það var því ljóst að það mætti búast við hörkuúrslitaleik.
Strákarnir byrjuðu leikinn mjög vel og komust snemma í 5-1. Króatarnir komust svo betur í takt við leikinn og jöfnuðu í 6-6 þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður. Eftir það var jafnt á öllum tölum en íslenska liðið leiddi 10-9 þegar flautað var til hálfleiks.
Áfram var leikurinn í járnum í þeim síðari en áfram var það íslenska liðið sem leiddi leikinn. Staðan var jöfn 17-17 þegar 10 mínútur lifðu leiks, lítið skorað enda mikil spenna í loftinu. Þá kom flottur kafli hjá strákunum og komust þeir í 20-18 og tæpar 5 mínútur eftir. Króatar jöfnuðu í kjölfarið metin og átti Ísland boltann þegar skammt var eftir. Því miður tókst ekki að skora og Króatar brunuðu upp í sókn og skoruðu sigurmarkið á lokasekúndunni, 20-21 tap því staðreynd.
Arnór Ísak og liðsfélagar hans fá því silfur á þessu flotta móti í Grikklandi. Vissulega svekkjandi að vinna ekki leikinn enda leiddu þeir leikinn frá upphafi en svona er boltinn. Árangurinn vissulega frábær engu að síður.