U-16 ára landslið Íslands í handbolta stendur í ströngu á Vrilittos Cup í Grikklandi. Arnór Ísak Haddsson leikmaður KA er í liðinu en í dag lauk riðlakeppninni á mótinu og tryggði íslenska liðið sér sæti í undanúrslitum.
Í fyrsta leik var leikið gegn Bosníu Herzegóvínu, eftir hörku fyrri hálfleik þá var lokaspretturinn betri hjá Bosníumönnum og voru hálfleikstölur 12-16. Íslenska liðið reyndi hvað það gat til að jafna metin í þeim síðari en það tókst ekki og 26-28 tap staðreynd. Arnór Ísak gerði 2 mörk í leiknum.
Strákarnir komu hinsvegar sterkir til baka í næsta leik sem var gegn Rúmeníu. Fljótt náði liðið góðu taki á leiknum og var staðan 16-8 í hálfleik og aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda. Munurinn fór mest upp í 10 mörk í þeim síðari en lokatölur voru 28-21 og strákarnir búnir að tryggja sér úrslitaleik í lokaumferðinni um sæti í næstu umferð. Arnór Ísak gerði 3 mörk í leiknum.
Í lokaleiknum mætti liðið Króatíu og allt undir. Úr varð svakalegur leikur og skiptust liðin á að leiða leikinn. Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik var staðan 11-11 en góður lokakafli strákanna sá til þess að hálfleikstölur voru 14-11 fyrir Ísland. Króatarnir voru hinsvegar fljótir að jafna metin í þeim síðari og var spennan í algleymingi. Strákarnir komust í 26-25 þegar um 10 sekúndur voru eftir og þeim tókst í kjölfarið að loka á Króatana og tryggja sér sætan sigur. Arnór Ísak gerði 4 mörk í leiknum.