Það er óhætt að segja að ungu mennirnir hjá Akureyri eigi sviðsljósið um helgina þar sem bæði 2. flokkur og Ungmennalið Akureyrar leika tvo afar mikilvæga leiki.
Föstudagur: Bikarleikur 2. flokks 8 liða úrslit.
Strákarnir í 2. flokki hefja dagskrána en þeir mæta HK í átta liða úrslitum Coca Cola bikars 2. flokks klukkan 20:30 á föstudagskvöldið. Akureyrarliðið vann Aftureldingu 29-28 í miklum slag í bikarnum en HK vann Hauka, sömuleiðis með einu marki, 21-20.
Við hvetjum alla til að koma og styðja strákana í bikarslagnum á föstudagskvöldið enda er allt undir í bikaleikjum. Það er frítt inn á leikinn sem hefst í Íþróttahöllinni klukkan 20:30.
Laugardagur: Akureyri U í 1. deild karla
Á laugardaginn er síðan komið að Ungmennaliði Akureyrar og HK að reyna með sér í 1. deild karla. Viðbúið er að hjá báðum liðum komi margir leikmenn við sögu í báðum leikjunum. Fyrir leikinn er Akureyri U í 9. sæti deildarinnar með 11 stig eftir 15 leiki en HK situr í 4. sæti með 19 stig eftir 14 leiki.
HK er í harðri samkeppni um að komast í umspil um sæti í Olísdeildinni næsta tímabil og munu því örugglega leggja allt í leikinn. Samkvæmt reglum fá Ungmennaliðin í deildinni ekki að vinna sig upp um deild en engu að síður mun Akureyrarliðið mæta af fullum krafti til leiks enda fá strákarnir þarna dýrmætt tækifæri til að sækja reynslu og sanna sig, sem nýtist þeim í baráttunni um sæti í meistaraflokknum.
Það er ljóst að einn leikmaður Ungmennaliðsins verður í leikbanni í laugardagsleiknum, Vignir Jóhannsson tekur út refsingu frá síðasta leik en hann mun geta leikið með 2. flokki á föstudagskvöldið.
Við hvetjum alla til að mæta í Höllina, á báða leikina og styðja við bakið á framtíðarleikmönnum Akureyrar, það er frítt inn á báða leikina.
Við vonumst til að sjá þig á leikjunum
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.