3. flokkur kvenna hjá KA/Þór í handbolta lék tvo leiki fyrir sunnan um síðustu helgi. Fyrri leikurinn var gegn Val á Hlíðarenda á föstudagskvöldið en sá síðari var gegn ÍR í Austurbergi á sunnudag.
Eftirfarandi pistill um helgina birtist á vefnum nordursport.net.
Valur KA/Þór
Vitað var fyrirfram að Valsliðið væri firnasterkt og því mátti búast við erfiðum leik hjá norðanstúlkum. KA/Þór byrjaði heldur illa en þó var jafnt á öllum tölum fyrstu mínúturnar. Eftir u.þ.b. 12 mínútna leik rauk lið Vals í gang og lítið gekk hjá KA/Þór. Valur hreinlega tók leikinn yfir og skoraði mörg mörk úr hraðaupphlaupum þar sem lítið gekk í sóknarleik KA/Þórs. Þá tók þjálfari KA/Þór leikhlé til að skerpa á hlutunum.
Lítið gekk eftir leikhléið til að byrja með og náði Valur 9 marka forskoti 15-6. Þjálfari KA/Þór gerði þá breytingar á liði sínu, Stefanía Theodórsdóttir og Arna Kristín Einarsdóttir komu inná. Innkoma þeirra breytti spilamennsku liðsins til hins góða og minnkuðu gestirnir muninn í 17-10 fyrir hálfleik.
Í síðari hálfleik breytti KA/Þór um vörn og náði jafnt og þétt að nálgast Valsarana og þegar skammt lifði leiks var staðan 28-25 Val í vil. Það var svo á síðustu mínútunum sem Lína Aðalbjargardóttir, markmaður KA/Þór sem skellti í lás og varði hraðaupphlaup ásamt nokkrum öðrum skotum. KA/Þór skoraði síðustu þrjú mörk leiksins og enduðu leikar 28-28 eftir frábæra endurkomu norðanstúlkna í seinni hálfleik.
Erfitt er að gera upp á milli leikmanna en vörnin í síðari hálfleik var hreint út sagt frábær ásamt því að Stefanía og Arna fóru mikinn í sóknarleiknum.
Birta Fönn Sveinsdóttir var drjúg í leikjunum
ÍR KA/Þór
Á sunnudaginn var svo leikið við ÍR. KA/Þór tapaði gegn þessu liði í niðurröðunarmóti sem fram fór í byrjun september og átti því harma að hefna eftir þann leik. ÍR liðið er vel spilandi með margar mjög hávaxnar stelpur og rétt eins og í fyrri leik helgarinnar var búist við hörkuleik.
Liðin byrjuðu bæði á svipuðum nótum og var jafnt framan af fyrri hálfleik en ÍR alltaf skrefinu á undan með 1-2 marka forskot. Vörnin fór svo aðeins að gefa eftir þegar leið á hálfleikinn, ÍR gekk á lagið og hafði fjögurra marka forskot í hálfleik 15-11. KA/Þór lagði á ráðin í hálfleik og ákváðu stelpurnar að rífa sig í gang ásamt því að í sameiningu með þjálfaranum ákvað liðið að breyta vörninni.
Aftur gekk það upp og KA/Þór minnkaði muninn jafnt og þétt og var staðan orðin jöfn 18-18 og skiptust liðin á að skora í dálítinn tíma þar til nokkrir vafasamir dómar litu dagsins ljós og ÍR seig frammúr, komst 5 mörkum yfir 28-23. Þá tóku stelpurnar sig saman í andlitinu, minnkuðu muninn aftur en það var of seint.
Endaði leikurinn með þriggja marka sigri ÍR 30-27 í miklum baráttuleik að hálfu KA/Þór. Lína Aðalbjargardóttir fór mikinn í markinu og varði fjölda skota, meðal annars 2 víti. Sóknarlega var Birta Fönn Sveinsdóttir drjúg fyrir KA/Þór en markaskor dreifðist frekar jafnt á leikmenn liðsins.
Stelpurnar leika í 1. deild og má búast við fjölda hörkuleikja hjá þeim í vetur.