Tímabilið á enda hjá 4. flokki kvenna

Eldra árið hjá 4. flokki kvenna spilaði í 8 liða úrslitum til Íslandsmeistara gegn Fram í KA heimilinu nú á laugardaginn. Liðin mættust í bikarúrslitum fyrr í vetur og er óhætt að segja að Fram hafi farið með öruggan sigur af hólmi í þeim leik. Í raun var sá leikur algjör einstefna og sáu norðanstúlkur aldrei til sólar í þeim leik. Það var því mikil gleði þegar þær fengu annað tækifæri gegn þessu ógnar sterka Fram liði.

Leikurinn byrjaði heldur varfærnislega og varnirnar sterkar hjá báðum liðum. Smám saman sigu Fram stelpur þó fram úr en heimastúlkur áttu ákaflega erfitt með að koma boltanum fram hjá liprum markmanni Fram. Þegar 15 mínútur voru búnar af leiknum var staðan 8-4 fyrir Fram og lítið í gangi hjá KA/Þór. Þá hins vegar losuðu þær sig úr fyrsta gír og náðu að jafna 8-8 fyrir leikhlé. Síðari hálfleikur hófst síðan eins og sá fyrri endaði. Vörn KA/Þór feiknarsterk og Sunna traust fyrir aftan. Smám saman sigu heimastúlkur fram úr og náðu undirtökunum. Lokatölur 17-13 sem verður að teljast nokkuð gott, að fá einungis fimm mörk á sig á tæplega 40 mínútum er eiginlega meira en nokkuð gott, það er frábært í svona leik. Vörnin var hreint út sagt stórkostleg í leiknum þar sem allar börðust fyrir hvor aðra, stemmingin og baráttan skein úr andlitunum og það var eiginlega ljóst í upphafi síðari hálfleiks að þessi leikur var ekki að fara að tapast. 

Strax daginn eftir átti yngra árið leik við Fram í undanúrslitum. Síðustu tvær viðureignir Fram og KA/Þór hafa endað með nokkuð stórum sigrum KA/Þórs en í úrslitakeppninni telja þeir sigrar ekki nokkurn skapaðan hlut. Heimastúlkur byrjuðu þó vel, vörnin sterk og sóknin hröð og góð en þegar líða fór á hálfleikinn fór að halla undan fæti. Það er þó ekkert nýtt en KA/þór hefur átt í undarlega miklum erfiðleikum með að spila vel í fyrri hálfleik í vetur og hafa flest allir leikirmnir spilast þannig að KA/Þór skellir í lás í síðari hálfleik og gerir þá út um leikinn. Fyrir vikið kemst Fram inn í leikinn og nær að jafna rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. KA/Þór fer upp í sókn sem gengur ekki upp en þær fá þó aukakast. Aukakastið er tekið, varnarveggur Fram hoppar upp og ver boltann. Þá var tekin sú vægast sagt áhugaverða ákvörðun af innri dómaranum að veifa eitt stykki rauðu spjaldi því samkvæmt reglu 8:9E í reglubók HSI skal refsa með útilokun þegar leikmaður sem tekur aukakast skýtur í höfuð varnarmanns, ef varnarmaðurinn hreyfir ekki höfuðið í kaststefnu boltans. Með öðrum orðum svo lengi sem varnarmaðurinn hreyfir sig ekki og skotið er beint í andlit skal útiloka viðkomandi leikmann. Það verður því að teljast virkileg óheppni að aukakastið skildi enda akkúrat á að því er virðist eina leikmanni Fram sem ekki hreyfði sig í aukakastinu og að innri dómarinn hafi metið það sem svo að það hafi farið í andlitið á þeim leikmanni, enda í bestri aðstöðu til að taka ákvörðun um jafn mikilvægan dóm. Þó svo að í raun boltinn hafi farið í hönd og andlit. 
Jæja. Nóg um það.
Stelpurnar byrjuðu því seinni hálfleik tveimur færri og eðlilega í nettu sjokki en gerðu vel í að halda út þar til að jafnt var í liðum. Fram náði þó forystunni á þeim kafla og spiluðu vel úr sínum spilum. Ekki batnaði ástandið þegar Una Kara þurfti að fara meidd af velli og í raun bara tvær eftir fyrir utan. Fram stelpur spiluðu vel síðustu tíu mínúturnar og lönduðu þriggja marka sigri. Það væri rosalega auðvelt að benda á hinar og þessar ástæður fyrir þessu tapi. Benda á mýmörg atvik sem féllu ekki með okkur en það breytir því miður ekki þeirri staðreynd að heimastúlkur voru langt frá sínu besta í dag og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Fram spilaði sinn besta leik í vetur og uppskáru eftir því. Eins sárt og það er að viðurkenna það þá var dagsformið slakt og stelpurnar hittu á slakan leik. Virkilega sárt tap að kyngja enda stelpurnar búnar að vera frábærar í vetur. Þetta var þeirra fyrsti tapleikur (í venjulegum leiktíma þar er) á þessu tímabili og hafa staðið sig í alla staði frábærlega. Þær lönduðu stærsta og erfiðasta titlinum, deildarmeistaratitlinum og voru vel að honum komnar. Þær þurfa svo sannarlega ekki að skammast sín fyrir árangur sinn í vetur, enda var hann frábær. Nú er hins vegar spurningin hvernig þær kjósa að bregðast við þessu tapi, hvort þær leggi árar í bát eða mæti enn ákveðnari á næsta ári og fari alla leið.

 

Eldra árið kláraði síðan leikjasyrpuna í dag gegn HK í undanúrslitum. Leikurinn einkenndist af gríðarlegri baráttu varnarlega hjá báðum liðum. KA/Þór hafði yfirhöndina framan af en síðan kom slæmur kafli og HK sigldi fram úr. HK hafði yfir, 6-10 í hálfleik. Síðari hálfleikur hófst svipað og hinn hafði endað, það er að segja HK skrefinu á undan. Heimastúlkur héngu þó inn í leiknum en eftir tíu mínútna leik hrundi leikur KA/Þór varnar og sóknarlega og HK komst í 6 marka forystu þegar rúmar tíu mínútur voru eftir, 10-16. Þá spýttu stelpurnar í lófana og lokuðu vörninni auk þess sem Sunna skellti í lás fyrir aftan. KA/Þór stelpur fengu aðeins eitt mark á sig síðustu ellefu mínúturnar og hefði það á venjulegum degi átt að nægja þeim. Hins vegar var þetta ekki venjulegur dagur og mistökin sóknarlega allt of mörg. Feilsendingar og léleg skot urðu þeim að falli í dag. Því miður. Þær hafa gert fá tæknimistök heilt yfir í vetur og því sorglegt að þetta mörg mistök eigi sér stað í þesum leik. Auk þess var heppnin svo sannarlega ekki með þeim en mörg skotanna fóru í stöngina og út á meðan þau voru að fara í stöngina og inn hinum meginn.

Líkt og með yngra árs liðið er virkilega sorglegt að eldra árið detti út í undanúrslitum. Veturinn búinn að vera heilt yfir frábær. 2. sæti í deild, úrslit bikars og undanúrslit til Íslandsmeistara. Það er vanþakklæti að vera ósáttur með þann árangur en maður vill alltaf meira vissulega en þær mega vera stoltar af árangrinum.

Yngra árið hefur sömuleiðis átt mjög góðan vetur, bikarúrslit, deildarmeistarar og undanúrslit til Íslandsmeistara.

Hópurinn sem slíkur er frábær, KA/Þór er eina liðið sem hefur á að skipa topp liðum bæði á yngra og eldra ári sem er vel. Þær hafa með mikilli elju og metnað náð að vinna sig upp úr meðalmennsku yfir í að vera topplið sem önnur lið óttast. Fáir leikir í vetur hafa endað með tapi og þær eru sannir sigurvegarar. Núna er mikilvægt að vel verði haldið utan um þennan hóp í framtíðinni þannig að þær skili sér sem flestar upp í meistaraflokk og KA/Þór fari að verða sjálfbært lið hvað leikmenn varða. Það kæmi manni heldur ekki mikið á óvart þó einhverjar af þessum stelpum eigi eftir að ná í fremstu röð, það er að segja ef þær halda áfram að æfa af sama krafti og með sama metnað og þær hafa sýnt síðustu ár.