Þrjú lið KA og KA/Þórs í bikarúrslitum

Handbolti

Skemmtilegasta helgin í íslenskum handbolta er framundan þegar úrslitaleikir í Powerade bikarnum fara fram í Laugardalshöllinni. Það myndast ávallt afar skemmtileg stemning í Höllinni þessa helgina en einstaklega skemmtilegt er að úrslitaleikir í öllum aldursflokkum fara fram í sömu umgjörð.

Alls eigum við í KA og KA/Þór þrjú lið í bikarúrslitum í ár og er það enn einn gæðastimpillinn á okkar öfluga starf í handboltanum. Allir leikirnir fara eins og áður segir fram í Laugardalshöllinni og verða í beinni á Handboltapassanum í sjónvarpi Símans.

Ekki nóg með það að þá verða þeir Siguróli Magni Sigurðsson og Sævar Árnason í eldlínunni í kvöld þegar þeir dæma leik ÍR og Vals í undanúrslitum meistaraflokks kvenna klukkan 18:00. Siguróli og Sævar hafa verið að fá stærri og stærri verkefni í dómgæslunni undanfarin ár og gaman að sjá dómara á vegum KA fá jafn stórt verkefni og þeir félagar í kvöld.

Stelpurnar á eldra ári 6. flokks hjá KA/Þór mæta Fram í úrslitum klukkan 10:30. Stelpurnar hafa verið algjörlega magnaðar í vetur og ekki spurning að þær mæta suður staðráðnar í að sækja bikarinn!

Á sunnudeginum eru það KA strákarnir á yngra ári 5. flokks sem ríða á vaðið er þeir mæta Stjörnunni í úrslitaleik klukkan 9:00. Strákarnir hafa bætt sig jafnt og þétt í vetur og ætla klárlega að toppa á réttum tíma og koma með bikarinn heim!

KA og Fram mætast loks í lokaleik helgarinnar þegar leikið er til úrslita í 3. flokki karla klukkan 15:30 á sunnudeginum. KA strákarnir hafa verið gríðarlega sigursælir undanfarin ár og ekki spurning að þeir ætla að bæta við enn einum titlinum í safnið!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is