Ekki færri en 700 áhorfendur urðu vitni að leik í dag sem bauð uppá allt sem góður handbolti getur boðið uppá þegar Þór sigraði KA í bikarúrslitum 4. flokks karla yngra ár í handbolta.
Stemmningin og öll umgjörð í bikarúrslitaleik 4. flokks karla yngra ár Þórs og KA sem fram fór í íþróttahöllinni í dag var mótshöldurum og aðstandendum leiksins til fyrirmyndar og áhorfendur sem voru ekki færri en 700, urðu vitni að leik sem bauð uppá allt sem góður handbolti getur boðið uppá.
Fyrirfram bjuggust flestir við jöfnum og spennandi leik og sú var raunin því grípa þurfti til framlengingar og vítakeppni þar sem úrslitin réðust í bráðabana.
KA menn byrjuðu leikinn betur og voru framan af í fyrri hálfleik höfðu þeir yfir þó aldrei meir en með tveim mörkum. Þórsara sýndu mikinn karakter og náðu að jafna og staðan í hálfleik 11-11.
Svipað var uppi á teningunum í síðari hálfleik þar sem þeir gul/bláu byrjuðu síðari hálfleikinn betur og leiddu um tíma með þrem mörkum. Þegar um mínúta var eftir af leiknum var staðan jöfn 20-20 og bæði lið fengu tækifæri til þess að komast yfir en án árangurs svo grípa varð til framlengingar 2×5 mínútur.
Sagan endurtók sig í framlengingunni þ.e. KA byrja betur en Þór komu sterkir til baka og jafna leikinn 25-25 svo útkljá varð um leikinn í vítakeppni.
Í vítakeppni fær hvort lið fimm víti. Bæði lið skora 3 mörk en misnota 2 víti svo ljóst að úrslitin myndu ráðast í bráðabana.
KA menn byrja á að klúðra víti en Þórsarinn Aron Hólm Kristjánsson fór svellkaldur á vítapunktinn og skoraði sigurmark Þórs 29-28.
Bæði lið spiluðu vel í dag og buðu uppá bráðskemmtilegan leik og áhorfendur fengu eins og áður segir leik sem bauð uppá allt sem alvöru handbolti getur boðið uppá.
Eins og áður segir var umgjörð í kringum leikinn hreint til fyrirmyndar og stemmningin meðal 700 áhorfenda alveg mögnuð. Bæði lið voru sjálfum sér og sínum félögum til sóma og ljóst að framtíðin er björt í handboltanum á Akureyri.
Markvörður Þórs, Tómas Ingi Gunnarsson var valinn maður leiksins hann varði 28 skot í leiknum
Frétt af Akureyri.net