Tap í Eyjum - Logi lék sinn fyrsta leik

Handbolti
Tap í Eyjum - Logi lék sinn fyrsta leik
Logi og Dagur að leik loknum

KA sótti ÍBV heim í Olísdeild karla í handboltanum í gær en liðin gerðu jafntefli í KA-Heimilinu í haust í hörkuleik. Það var því töluverð eftirvænting eftir þessum landsbyggðarslag en Vestmannaeyingar eru iðulega erfiðir heim að sækja og verkefnið krefjandi.

Strákarnir okkar fóru vel af stað og leiddu 8-10 um miðbik fyrri hálfleiks. Þá hrökk hinsvegar allt í baklás hjá liðinu og heimamenn gengu á lagið. Eyjamenn gerðu tíu mörk gegn aðeins tveimur fyrir hlé og leiddu því 18-12 þegar liðin gengu til búningsherbergja sinna.

Staðan var því erfið fyrir síðari hálfleikinn en strákarnir okkar eru alls ekki þekktir fyrir að leggja árar í bát og þeir komu til baka. Forskot ÍBV var komið niður í tvö mörk, 25-23, þegar liðið var á síðari hálfleikinn en nær komust strákarnir ekki og ÍBV vann að lokum sannfærandi 34-30 sigur.

Patrekur Stefánsson fór hamförum í okkar liði en hann gerði 13 mörk í leiknum. Næstur kom Einar Rafn Eiðsson með 7 mörk, þar af 3 úr vítum. Einar Birgir Stefánsson gerði 4, Gauti Gunnarsson 3, Dagur Gautason 2 og Skarphéðinn Ívar Einarsson gerði 1 mark. Í markinu varði Bruno Bernat 14 skot en Nicholas Satchwell sem hóf leikinn varði 4 skot.

Eins og svo oft áður í vetur sýndi okkar lið flotta kafla í leiknum en vantar meiri stöðugleika þegar leikurinn er tekinn í heild sinni. Við erum að byggja á mörgum ungum KA strákum og alveg vitað mál að það mun taka tíma að ná upp stöðugleika en eitt er ljóst að þessi vetur mun gefa leikmönnum okkar afar dýrmæta reynslu og virkilega jákvætt að sjá hve góða spilamennsku strákarnir hafa sýnt á köflum í vetur.

Logi Gautason lék sinn fyrsta meistaraflokksleik en hann kom við sögu er hann leysti Dag bróður sinn af í vinstra horninu í síðari hálfleik. Við óskum honum innilega til hamingju með áfangann!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is