KA/Þór tók á móti HK í Olísdeild kvenna í handbolta í KA-heimilinu í gærkveldi. Eftir góðan fyrri hálfleik gáfu heimastúlkur mikið eftir og töpuðu leiknum að lokum með fimm marka mun.
Þessi umfjöllun um leikinn er fengin af vefnum Norðursport.
Bæði lið ætluðu sér sigur og sást það frá fyrstu mínútum leiksins. KA/Þór skoraði fyrsta markið og HK jafnaði stuttu síðar og komst yfir. Forustan hjá HK var ávalt 2-3 mörk fyrstu 20 mínútur leiksins en þá tók KA/Þór við sér og náði að jafna metin og komast í 14-11 með frábærri vörn, góðri markvörslu hjá Línu Aðalbjargardóttur og öguðum og góðum sóknarleik. Forustan hélst út hálfleikinn hjá heimastúlkum en þó náði HK að minnka muninn í 1 mark fyrir hálfleik en þá stóðu leikar 16-15 KA/Þór í vil.
Síðari hálfleikur byrjaði með jafnræði á liðunum en eftir um 5 mínútna leik klikkaði varnarleikurinn algjörlega hjá KA/Þór, einfaldar innleysingar virtust gjörsamlega fara með varnarleikinn og HK gekk á lagið og skoraði nánast að vild næstu 15 mínúturnar. Við þetta virtist sjálfstraustið detta niður hjá KA/Þór þar sem sóknarleikurinn gekk ekki eins vel og í fyrrihálfleik og það varð erfiðara að koma boltanum í netið. HK náði mest 6 marka forskoti í stöðunni 21-27 en þá hafði heimaliðið fengið nokkra ódýra brottrekstra og HK fengið auðveldar sóknir einum fleiri. KA/Þór náði þó að halda baráttunni áfram og minnkuðu muninn í 25-28 en bilið var greinilega orðið of breitt milli liðanna því nær komust þær ekki. Lokatölur urðu 26-31 HK í vil.
Mörk KA/Þór: Ásdís Sigurðardóttir 7, Martha Hermannsdóttir 6, Anna Kristín Einarsdóttir 3, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 3, Birta Fönn Sveinsdóttir 2, Erla Hleiður Tryggvadóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 2 og Stefanía Theodórsdóttir 1.
Hjá HK var Gerður Arinbjarnar markahæst með 9 mörk og Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir með 8.
Þetta var ekki nægjanlega góð niðurstaða fyrir liðið eftir þennan leik þar sem þær vildu fá sigur. Næsti leikur liðsins er á laugardaginn kl. 13:30 í KA-heimilinu en þá kemur Valur í heimsókn.