Tap gegn toppliðinu eftir hörkuleik

Handbolti
Tap gegn toppliðinu eftir hörkuleik
Góð byrjun dugði ekki (mynd: Þórir Tryggva)

KA sótti topplið Hauka heim í 13. umferð Olís deildar karla í gær en fyrir leikinn voru Haukar enn taplausir og ljóst að KA biði ansi erfitt verkefni. Fyrri leikur liðanna í vetur var þó hörkuspennandi og klárt mál að strákarnir gætu með góðum leik tekið öll stigin.

Strákarnir byrjuðu leikinn af krafti og tóku strax frumkvæðið. Varnarleikurinn var öflugur og þar fyrir aftan stóð Jovan Kukobat fyrir sínu. Sóknarleikurinn var agaður og fundust á endanum glufur á öflugri Haukavörninni. Þá gerðu strákarnir vel í að keyra á heimamenn þegar færi gafst og komu þó nokkur mörk úr hraðaupphlaupum.

Er fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður leiddi KA 6-9 og útlitið ansi gott. En Haukar eru með gríðarlega öflugt lið og mikla breidd og þeim tókst að jafna metin í 11-11 sem urðu hálfleikstölur.

Haukarnir gerðu svo fyrsta mark síðari hálfleiks og komust þá í fyrsta skipti yfir í leiknum. KA liðið svaraði með næsta marki en í kjölfarið fóru strákarnir að gera fleiri mistök og Haukaliðið nýtti sér það. Hægt og bítandi jókst forskot heimaliðsins og á endanum unnu þeir leikinn 28-22.

Sex marka tap því staðreynd sem er fullstórt miðað við gang leiksins. Það þarf nær allt að ganga upp til að leggja lið Hauka að velli og því miður tókst strákunum ekki að ná upp stöðugum leik í 60 mínútur. KA liðið fékk fimm vítaköst í leiknum en tókst einungis að nýta eitt þeirra og það er dýrt.

Þá má benda á að dómgæslan í leiknum var vægast sagt furðuleg og gekk báðum liðum ansi erfiðlega með að finna línuna hjá dómurum leiksins. Alls voru 15 brottvísanir í leiknum sem og eitt rautt spjald og sást bersýnilega að dómgæslan fór ansi illa í liðin enda var nær ómögulegt að átta sig á því hvað mætti og hvað ekki. Það reyndist líklega heimamönnum auðveldar að melta þessar aðstæður þar sem breiddin í hópnum er einfaldlega meiri og því gátu menn róað taugarnar með því að fara á bekkinn inn á milli.

Daníel Örn Griffin var markahæstur í KA liðinu með 6 mörk, Sigþór Gunnar Jónsson 3, Allan Norðberg 3, Dagur Gautason 2, Patrekur Stefánsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Daníel Matthíasson 1, Daði Jónsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1 og Jóhann Einarsson 1 mark. Í markinu varði Jovan Kukobat 12 skot.

Framundan er síðasti leikur liðsins fyrir jólafrí en það er heimaleikur gegn Fjölni á sunnudaginn klukkan 17:00. Það er gríðarlega mikilvægur leikur en strákarnir eru í 8.-9. sæti deildarinnar með 9 stig á meðan Fjölnir er í fallsæti með 5 stig. Með sigri kemur liðið sér í góða stöðu í baráttunni um úrslitakeppnissæti auk þess sem að strákarnir yrðu þá sex stigum frá fallsæti.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is