Kvennalið KA/Þór hóf leik í dag í Olís-deild kvenna, á nýjan leik eftir eins árs fjarveru. Þær léku gegn Selfossi á Selfossi og þurftu að lúta í gras, 24-25, eftir spennandi viðureign. Olís-deildin er rétt að fara af stað og er næsti leikur stelpnanna heimaleikur í KA-heimilinu á laugardaginn næsta.
Mikið jafnræði var með liðunum framan af og leiddu heimastúlkur í Selfossi með einu marki í hálfleik, 15-14. Martha Hermannsdóttir var atkvæðamest í KA/Þórs liðinu með 11 mörk í leiknum og dróg hún vagninn lengi vel. Hún var síðan tekin úr umferð allann síðari hálfleikinn og þá steig ung stúlka að nafni Birta Fönn Sveinsdóttir upp og skoraði 7 mörk. Þrátt fyrir flotta frammistöðu hjá liðinu sem er að koma í deildina á nýjan leik eftir eins árs fjarveru, var tap niðurstaðan, 25-24.
KA/Þór var spáð neðsta sætinu en það er greinilegt ef þær spila og berjast líkt og þær gerðu í dag geta þær klárlega afsannað þessa spá. Eins og ofan segir er næsti leikur á laugardaginn kl 13.30, þá gegn Aftureldingu í KA-heimilinu.