Stelpurnar í 3. flokk spiluðu gegn FH tvo leiki um helgina. Á laugardeginum var bikarleikur og leikur í deildinni á sunnudeginum.
Laugardagsleikurinn spilaðist svipað og leikirnir hjá 3. flokk hingað til. Sókn og vörn ágæt en mikið vantaði upp á baráttu og
sigurvilja. Stemmingin í liðinu lítil og leikmenn að spila langt undir getu. Markverðir liðsins fundu sig engan veginn og þegar vörnin var að
spila ágætlega virtust FH stelpur getað skorað úr nánast hvaða færi sem þær fengu. Hálfleikstölur voru 12-17 fyrir FH og
ljóst að mikið þyrfti að breytast í seinni hálfleiknum.
Seinni hálfleikurinn spilaðist nokkuð svipað og sá fyrri. Stelpurnar reyndu að klóra í bakkann en voru langt frá sínu besta í leiknum
og almenn deyfð yfir öllum hópnum. Alltaf náðu FH stelpurnar að losa boltann og vantaði sárlega að klára brotin í KA vörninni.
Sóknarlega gekk boltinn ágætlega, nokkuð vantaði þó upp á kjark heilt yfir í liðinu. FH gekk langt út gegn Kolbrúnu
Gígju en við það losnaði pláss fyrir Steinþóru Sif og nýtti hún sér það til hins ítrasta og skoraði 11
mörk. Laufey Lára Höskuldsdóttir leikmaður 4. flokks kvenna spilaði líka gríðarlega vel sóknarlega og skilaði sex mörkum. Má
segja að framlag þeirra tveggja hafi verið ljósi punkturinn í þessum leik sem endaði 26-37 fyrir FH. Það gefur þó ekki alveg rétta
mynd af gangi leiksins því að síðustu fimm mínúturnar gáfust KA stelpur algjörlega upp og FH stelpur skoruðu fimm síðustu
mörkin í leiknum.
Stelpurnar höfðu því innan við sólahring til að rífa sig upp og fara að spila af eðlilegri getu enda löngu kominn tími á
það.
Óhætt er að segja að þær hafi svarað kallinu svo um munaði. Allt annað var að sjá til þeirra í leiknum í dag.
Þær börðust um hvern einasta bolta gáfu ekkert eftir varnarlega og voru nokkuð öruggar í sínum aðgerðum sóknarlega. Leikgleðin og
baráttan skein úr hverju einasta andliti og uppskáru þær fyrir vikið sanngjarnan og verðskuldaðan sigur 25-22.
Hver einasti leikmaður sem spilaði skilaði sínu og gott betur. Það skipti engu máli hver kom inn á hún bætti bara við það sem
leikmaðurinn á undan hafði verið að gera. Bæði Laufey og Kolbrún Gígja meiddust snemma í leiknum en bitu á jaxlinn og kláruðu
leikinn með sóma. Markaskorun dreyfðist nokkuð yfir liðið fyrir utan Steinþóru Sif einspilara sem skoraði 12 mörk. Mörg hver með
góðri smurningu af samskeytum.
Arna Sif stóð lengst af í markinu og varði virkilega vel í leiknum, lokaði meðal annars algjörlega á hornamenn FH sem daginn áður
höfðu skorað samanlagt 16 mörk fyrir FH.
Stelpurnar eru núna búnar að spila sex leiki yfir það heila í vetur og liðið sýndi það í dag að þegar allar leggjast
á eitt og berjast hvor fyrir aðra eru þær til alls líklegar.
Næsti leikur stúlknanna er gegn ÍR í KA heimilinu næstkomandi sunnudag.