Susanne Pettersen til liðs við KA/Þór

Handbolti
Susanne Pettersen til liðs við KA/Þór
Velkomin í KA/Þór!

Susanne Denise Pettersen hefur skrifað undir tveggja ára samning við kvennalið KA/Þórs. Susanne sem er 27 ára gömul vinstri skytta mun styrkja okkar unga og metnaðarfulla lið en hún kemur til liðs við KA/Þór frá norska liðinu Pors.

Susanne hefur farið mikinn með liði Pors undanfarin tíu ár þar sem hún hefur leikið í norsku 1. og 2. deildinni með liðinu og var hún meðal annars næstmarkahæst í 2. deildinni á síðustu leiktíð. Hún hefur leikið með aðalliði Pors frá árinu 2014 ef frá er talinn veturinn 2020-2021 þar sem hún lék með liði Grane í 1. deildinni. Þá var hún hluti af yngrilandsliðum Noregs á sínum tíma.

Það verður afar spennandi að fá þessa öflugu og reynslumiklu skyttu í lið okkar en á komandi vetri er lagt upp með að byggja upp öflugan kjarna af ungum og uppöldum leikmönnum og er það afar sterkt að fá inn sterkan utanaðkomandi leikmann til að miðla af sinni reynslu.

Susanne var búin að gefa það út fyrir lok síðasta tímabils að hún væri spennt fyrir því að prófa nýjar aðstæður og segist hún full tilhlökkunar að mæta norður. Við erum á sama tíma ákaflega spennt fyrir hennar komu og fylgjast með framgöngu hennar í okkar spennandi liði.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is