Sunnudagsleikurinn: Akureyri – Valur í bikarnum

Það er enginn smáleikur sem verður boðið uppá í Íþróttahöllinni á sunnudaginn, bikarleikur gegn toppliði Olís-deildarinnar, Val. Það þarf varla að kynna Valsliðið fyrir handboltaáhugamönnum á Akureyri en liðin mættust í hörkuleik í Höllinni fyrr í vetur þar sem Valur fór að lokum með þriggja marka sigur, 27-30.

Í þeim leik fóru Akureyrarfrændurnir Guðmundur Hólmar Helgason og Geir Guðmundsson fyrir Valsmönnum líkt og þeir hafa svo oft gert undanfarin tvö ár eftir að þeir gengu til liðs við Hlíðarendaliðið.


Frændur Guðmundur og Geir

Í síðasta leik völtuðu Valsmenn yfir Framara þannig að þeir verða örugglega erfiðir viðureignar. Hlynur Morthens markvörður er kominn í leikmannahóp Valsmanna eftir meiðsli en hann hefur oftar en ekki farið á kostum hér í Höllinni.

Akureyrarliðið átti marga flotta spretti í jafnteflisleiknum gegn hinu toppliðinu, ÍR á fimmtudagskvöldið þannig að heimamenn munu selja sig dýrt á sunnudaginn. Enda er jafntefli ekki í boði í bikarleik og verður barist til þrautar til að fá sigurvegara.

Þó ótrúlegt megi virðast þá hafa Akureyri og Valur aðeins einu sinni áður mæst í bikarkeppninn en það var í sjálfum bikarúrslitaleiknum árið 2011. Þá var Akureyri á toppi deildarinnar en Valsmenn í ströggli í deildinni en eins og svo oft hefur komið í ljós þá segir staðan í deildinni ekki allt í bikarleikjum því þá fór Valur með sigur eftir mikla dramatík og spurninging því hvað gerist í ár?

Við minnum á að stuðningsmannaskírteinin gilda ekki á bikarleiki, allir þurfa að greiða aðgangseyrinn, 1.500 kr fyrir fullorðna en frítt er fyrir 15 ára og yngri.