Bæði karlalið KA og kvennalið KA/Þór léku æfingaleiki um helgina í handboltanum. Stelpurnar spiluðu við Val á Blönduósi og strákarnir fóru til Reykjavíkur og léku við Gróttu og Fram.
Strákarnir léku við Gróttu á föstudagskvöldið á Seltjarnarnesi. Grótta leikur í úrvalsdeildinni, deild ofar en KA. Leikurinn var jafn og skemmtilegur. Grótta náði frumkvæði undir lok leiksins og sigldi í hús þriggja marka sigri, 32-29.
Daginn eftir léku strákarnir við Fram í Safamýrinni og spiluðu hörkuleik gegn úrvalsdeildarliði Fram. Leiknum lauk með eins marks sigri Framara, 30-29 en sigurmarkið kom í síðustu sókn heimamanna.
KA-liðið leit mjög vel út á löngum köflum. Sóknarleikur liðsins gekk frekar vel miðað við fyrstu æfingaleiki vetrarins og var takturinn í spili liðsins fínn. Varnarleikur liðsins gekk brösulega til að byrja með en lagaðist þegar leið á helgina. Allir leikmenn liðsins fengu að spreyta sig og komu góðir kaflar frá mörgum leikmönnum.
Stelpurnar hittu Val á Blönduósi og léku þar við firnarsterkt Olís-deildarlið Vals. Stelpurnar létu það sig engu skipta þó svo að Valur sé eitt sterkasta liðið á landinu og unnu sannfærandi sigur, 31-25. Varnarleikur liðsins var góður og komu mörg mörk úr hröðum upphlaupum og seinnibylgju. Þetta var þriðji æfingaleikur stúlknanna í vetur en þær unnu Aftureldingu í tveimur leikjum á Akureyri síðustu helgi. Stelpurnar eru að koma vel undan undirbúningatímabilinu.
Karlaliðið heldur suður yfir heiðar aftur næstu helgi og leikur við HK og Hauka á meðan stelpurnar taka frí.