Stórmerkileg helgi hjá 4. flokki kvenna

Yngra ár 4. flokks kvenna styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar nú um helgina með góðum sigrum gegn Haukum og ÍBV í Reykjavík. Haukaliðið spilar hraðan og skemmtilegan bolta og því erfiðar heim að sækja en norðanstúlkur náðu þó fljótt undirtökunum og héldu þeim allt til enda.

ÍBV er síðan höfuð andstæðingurinn í deildinni enda bæði lið taplaus fyrir þessa viðureign og eina stigið sem hvort liðið hafði tapað var í jafnteflisleik þessara tveggja liða í haust.

Leikurinn var í járnum frá upphafi og frá 10 mínútu voru ÍBV skrefi á undan. KA/Þór stelpurnar voru stressaðar og spiluðu illa í sókninni en vörn og markvarsla hélt þeim inn í leiknum. Á síðustu mínútunum náðu KA/Þór stelpur loksins yfirhöndinni. Arnrún Guðmundsdóttir varði víti frá aðal skyttu ÍBV og KA/Þór fór upp í sókn sem endaði með að varnarbuffið Helena Arnbjörg fór inn úr öfugu horni og gróf boltann í fjærhornið og kom KA/Þór í 17-16 og rétt tæpar tvær mínútur eftir. Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum, vörn KA/Þórs stóðst öll áhlaup sem ÍBV gerði enda náðu eyjastúlkur ekki skoti á markið síðustu tvær mínúturnar. Það gerðu norðan stúlkur hins vegar, tvö skot í slánna og niður en inn vildi boltinn ekki. Eflaust til að stytta ævi þjálfaranna um einhver ár sökum hjartaskemmda.

Sætum eins marks sigri fagnað vel og innilega í miklum baráttuleik. Allt liðið lék frábærlega í vörn en sóknarleikurinn hefur oft verið betri. Boltinn gekk illa og mikið um hnoð en stressið var mikið enda mikið undir. Þar af leiðandi var það virkilega sterkt að klára þennan leik.

Á sunnudeginum var síðan heimaleikur hjá eldra árinu gegn Fjölni sem er taplaust í 1. deildinni og situr á toppinum á meðan KA/Þór situr í 2. sæti skammt á eftir. Stelpurnar byrjuðu leikinn skelfilega og má segja að allur fyrri hálfleikur hafi verið afspyrnu slakur hjá KA/Þór ef frá eru taldar síðustu fimm mínúturnar í hálfleiknum. Merkilegt nokk þá var staðan einungis 8-12 fyrir Fjölni í hálfleik þrátt fyrir að KA/Þór væri langt frá sínu besta. Stelpurnar mættu loks til leiks í síðari hálfleik, náðu að jafna og komast yfir þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Leiðinleg mistök í sókninni og augnabliks einbeitingaleysi í vörninni hleyptu Fjölni svo aftur yfir í leiknum. KA/Þór fékk möguleika á að jafna í sinni síðustu sókn en sú sókn rann út í sandinn og því svekkjandi eins marks tap staðreynd í hörkuleik sem hefði getað fallið KA/Þór meginn.

Hugsanlega má segja að þreyta hafi verið farin að gera vart við sig síðustu mínúturnar. Una Kara og Aldís Ásta sem spiluðu stórt hlutverk sóknarlega í endurreisninni í síðari hálfleik spiluðu tvo leiki í Reykjavík á föstudegi og Laugardegi auk þess sem Þórunn Eva og Sunna Guðrún spiluðu með mst. flokknum gegn Fram á laugardeginum. Það breytir því þó ekki að sú þreyta var ekki til að byrja með í upphafi leiks. Stelpurnar brenndu sig illa á því að mæta ekki brjálaðar inn í leikinn og ná undirtökunum strax frá fyrstu mínútu. Þær þurfa þó ekki að bíða lengi eftir næsta leik þar sem strax á laugardaginn næsta fá þær tækifæri til að sýna sitt rétta andlit þegar þær sækja Fjölni heim í Grafarvoginn.

KA/Þór2 spilaði síðan tvo leiki á sunnudeginum, við Selfoss 1 og Selfoss 2. Selfoss 1 eru efstar í deildinni og hafa á að skipa virkilega vel spilandi liði. Stelpurnar sýndu þeim þó enga virðingu og spiluðu frábæran fyrri hálfleik og munurinn aðeins eitt mark þegar leikmenn gengu inn í búningsklefa. Selfoss mætti hins vegar mun grimmari til leiks í síðari hálfleik á meðan heimastúlkur sýndu ákveðna værukærð. Fyrir vikið rúlluðu gestirnir yfir hálf sofandi heimastúlkur og tíu marka tap niðurstaðan.

Seinni leikurinn var svo gegn Selfoss 2. Sá leikur var í járnum mest allan leikinn ef frá eru taldar fimm mínútur sem KA/Þór2 stelpurnar gerðu sig sekar um sofandahátt. Þá náði Selfoss2 forskoti sem það hélt allt til enda. 

Næsti leikur hjá 4. flokki kvenna er á yngra árinu klukkan 18:00 í KA heimilinu á fimmtudaginn þar sem þær mæta ÍR í undanúrslitum bikarsins. Um að gera að mæta upp í KA heimili og hvetja stelpurnar í Höllina.

 

Þjálfarar