Stór handboltahelgi framundan - tveir heimaleikir

Handbolti
Stór handboltahelgi framundan - tveir heimaleikir
Fjögurra stiga leikur framundan á sunnudaginn!

Það er heldur betur nóg um að vera í handboltanum um helgina en öll meistaraflokkslið okkar eiga leik um helgina og eru þar af tveir þeirra á heimavelli.

Ungmennalið KA ríður á vaðið þegar strákarnir taka á móti Kórdrengjum í kvöld, föstudag, klukkan 20:15. KA U leikur í næstefstu deild og eru strákarnir á góðu róli en gestirnir eru á botni deildarinnar án stiga.

Á morgun, laugardag, sækja stelpurnar okkar í KA/Þór lið Hauka heim klukkan 16:00 að Ásvöllum í Hafnarfirði. Liðin eru jöfn í deildinni með 4 stig fyrir leik rétt eins og Selfoss og ljóst að það eru gríðarlega mikilvæg stig í húfi í leiknum. Stelpurnar hafa sýnt frábæra spilamennsku gegn sterkari liðum deildarinnar að undanförnu og vonandi ná þær að halda þeim dampi áfram gegn flottu liði Hauka. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Að lokum tekur karlalið KA á móti Gróttu í afar mikilvægum leik í Olísdeild karla á sunnudaginn klukkan 17:00. Bæði lið eru með 8 stig og ljóst að baráttan um sæti í úrslitakeppninni verður gríðarlega hörð og er leikurinn á sunnudaginn hreinlega skólabókardæmi um fjögurra stiga leik. Leikurinn verður í beinni á KA-TV fyrir 1.000 krónur en við hvetjum alla sem geta til að mæta og styðja strákana til sigurs.

Smelltu hér til að opna KA-TV


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is