Það er enginn smá leikur framundan í kvöld þegar KA/Þór sækir Stjörnustúlkur heim í 12. umferð Olís deildar kvenna. Fyrir leikinn er KA/Þór í 5. sæti deildarinnar með 10 stig en Garðbæingar eru í 6. sætinu með 8 stig. Þetta er því klár fjögurra stiga leikur og geta stelpurnar með sigri að miklu leiti sagt skilið við botnbaráttuna.
KA/Þór vann frábæran 23-19 sigur í fyrri leik liðanna þar sem liðið komst í 21-12 áður en gestirnir löguðu stöðuna. Síðan þá hefur lið Stjörnunnar bætt sig mikið og hefur unnið sig upp töfluna, munurinn á liðunum eins og fram kom áður aðeins tvö stig og gríðarlega mikið undir í leik kvöldsins.
Stelpurnar unnu stórsigur í síðasta leik gegn Selfossi 33-22 þar sem allt liðið spilaði hreint út sagt stórkostlega. Gríðarlega jákvætt var að sjá hve vel álaginu var dreift í leiknum en þetta var til að mynda fyrsti leikur Aldísar Ástu Heimisdóttur í vetur en hún var að stíga uppúr ristarmeiðslum.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að leggja leið sína í Garðabæinn í kvöld og styðja okkar frábæra lið til sigurs en leikurinn hefst klukkan 19:30. Fyrir ykkur sem ekki komist á leikinn þá verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport, áfram KA/Þór!