Kvennalið KA/Þórs hefur hafið æfingar að nýju eftir sumarfrí og hófust þær strax á þriðjudaginn. Góður gangur hefur verið á æfingunum í vikunni, sem hafa verið undir handleiðslu Gunnars Ernis Birgissonar. Gunnar er kominn í þjálfarateymi kvennaliðs KA/Þór en hann hefur verið að þjálfa hjá Val undanfarin ár. Gunnar mun þjálfa 3. fl kvenna í vetur og vera aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokk.
Þjálfari meistaraflokks í vetur mun vera Einvarður Jóhannsson en hann er rétt ókominn frá útlöndum. 18 stelpur mættu á fyrstu æfingu vetrarins og fengu að taka vel á því. Skemmtileg blanda yngri og eldri leikmanna er á æfingum en þær yngstu eru 16 ára gamlar en þær elstu aðeins eldri.
Liðið mun taka þátt í N1-deild kvenna í vetur, eftir árs fjarveru. Deildin hefst í lok september og mun liðið spila sína heimaleiki í KA-heimilinu.
Þá hefur Siguróli Sigurðsson tekið við formennsku handknattleiksdeildarinnar og mun sjá um rekstur kvennaliðsins í vetur. Hann vildi koma því á framfæri hér á síðunni að hann óskar eftir góðu fólki til að starfa með í vetur, enn margar hendur vinna létt verk. Hægt er að hafa samband við Siguróla í síma 692-6646 eða með tölvupósti: sigurolim (hjá) gmail.com