Stál í stál hjá 3. flokki kvenna í KA/Þór

Um helgina kom Fylkir í heimsókn til að spila við KA/Þór í 3. flokki kvenna. Liðin höfðu mæst einu sinni í vetur þar sem Fylkir bar sigurorð af KA/Þór 31-17. Fylkir situr í 2. sæti deildarinnar en KA/Þór í því 7. svo það var búist við erfiðum leik fyrir norðanstúlkur.

Í byrjun var jafnræði með liðunum en Fylkir ávallt skrefi á undan. KA/Þór óx ásmegin þegar líða tók á hálfleikinn og náði að komast yfir í stöðunni 9-8. Fylkir átti erfitt með að skora í uppstilltum sóknarleik en fékk nokkur hraðaupphlaup sem héldu þeim inni í leiknum. Liðin skiptust svo á að leiða út hálfleikinn og þegar hálfleiksflautan gall þá leiddi Fylkir með einu marki, 13-14.

Síðari hálfleikur fór heldur rólega af stað og skoraði hvorugt liðið fyrstu 5 mínúturnar. Fyrsta mark síðari hálfleiks var þó heimamanna og staðan því orðin jöfn. Allt var í járnum næstu 10 mínúturnar og jafnt á öllum tölum þar til í stöðunni 17-17. Þá fóru heimastúlkur að verða óskynsamari í sóknarleiknum sem leiddi til þess að Fylkir skoraði 4 mörk í röð og þegar 15 mínútur voru eftir var staðan orðin 17-21, Fylki í vil. Þá tók þjálfari KA/Þórs leikhlé og messaði aðeins yfir sínu liði. Við það hresstust stelpurnar aðeins en á móti ógnarsterku liði eins og Fylki þá er erfitt að brúa það bil sem hafði myndast. Stelpurnar minnkuðu þó muninn í tvö mörk í stöðunni 21-23 en Fylkir gaf aftur í og náði fimm marka forskoti sem hélst út leikinn. Lokatölur 24-29.

Flott barátta var hjá stelpunum í leiknum en það sást vel að viss þreytumerki voru á liðinu þar sem margar af stelpunum höfðu spilað stórt hlutverk í meistaraflokksliði KA/Þórs sem spilaði einmitt við Fylki kl. 13:00 fyrr um daginn.

Markaskor KA/Þórs í leiknum: Birta Fönn Sveinsdóttir 8, Laufey Lára Höskuldsdóttir 5, Arna Kristín Einarsdóttir 5, Stefanía Theodórsdóttir 4 og Aldís Anna Höskuldsdóttir 2.

Í markinu varði Lína Aðalbjargardóttir 13 skot.

Næsti leikur hjá 3. flokki er á móti ÍBV nk. föstudag, 14. mars kl. 19:00. Hvetjum alla til að mæta og sjá stelpurnar spila þann leik.