Slakur sóknarleikur kostaði tap gegn Val

Handbolti
Slakur sóknarleikur kostaði tap gegn Val
Það gekk ekki að Hlíðarenda (mynd: EBF)

KA sótti Val heim í gærkvöldi í Olís deild karla en bæði lið komu með mikið sjálfstraust inn í leikinn enda bæði taplaus í síðustu þremur leikjum. Vegna Evrópuævintýris hjá Val var leiknum flýtt en bæði lið léku á sunnudaginn og því stutt á milli leikja.

Daði Jónsson sneri aftur í vörn KA liðsins eftir að hafa misst af síðasta leik en Áki Egilsnes sem meiddist snemma gegn FH var fjarri góðu gamni. Heimamenn virtust ætla að gera útum leikinn strax á upphafsmínútunum en staðan var orðin 7-2 eftir um tólf mínútna leik og útlitið alls ekki gott.

Stefán og Jónatan tóku því eðlilega leikhlé og í kjölfarið kom flottur kafli hjá strákunum. Valsarar skoruðu ekki mark í tæpar tíu mínútur og það nýtti KA liðið sér með því að gera fimm mörk í röð og jöfnuðu í 7-7. Heimamenn náðu þó áttum aftur og leiddu 13-11 er flautað var til hálfleiks.

Strákarnir minnkuðu muninn tvívegis í eitt mark í upphafi síðari hálfleiks en nær komust þeir ekki. KA liðið var allan tímann vel inn í leiknum en þegar um tólf mínútur lifðu leiks var staðan 20-17 fyrir Val. Þá hrundi leikur liðsins og heimamenn gengu á lagið og unnu að lokum 31-23 sigur.

Alltof stórt tap því staðreynd en slakur sóknarleikur á löngum köflum varð liðinu að falli að þessu sinni. Það er vitað mál að Áki Egilsnes er lykilhluti af sókn KA liðsins og fjarvera hans er vissulega erfið. Strákarnir leystu það vel á sunnudaginn gegn FH en þegar jafn stutt er á milli leikja eins og raun ber vitni er erfitt að halda dampi án jafn sterks leikmanns og Áki er. Þá hjálpaði það liðinu ekki að Hreiðar Levý og Daníel Freyr markmenn Vals voru frábærir í leiknum.

Dagur Gautason var markahæstur í liði KA með 7 mörk, Daníel Matthíasson gerði 4, Patrekur Stefánsson 3, Andri Snær Stefánsson 2, Jóhann Einarsson 2, Daníel Griffin 2, Allan Norðberg 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1 og Sigþór Gunnar Jónsson 1 mark. Jovan Kukobat varði 9 skot í markinu.

Nú fá strákarnir heila viku til að undirbúa sig fyrir næsta leik og verður það kærkomið. Næsti leikur er einnig ansi skemmtilegt verkefni en þá sækir KA lið Aftureldingar heim í 16-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins. Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV og gaman verður að sjá hvort strákarnir nái að tryggja sér sæti í næstu umferð Bikarkeppninnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is