Skin og skúrir hjá eldra ári 4. flokks kvenna

Stelpurnar byrjuðu leikinn vægast sagt hræðilega og lentu 0-5 undir. Í þeirri stöðu kviknaði á þeim og þær sigu fram úr og fóru inn í hlé með þægilega forustu, 15-10. Í síðari hálfleik byrjuðu þær af krafti og skoruðu þrjú fyrstu mörkin og staðan orðin 18-10 og allt útlit fyrir stórsigur heimastúlkna. Þó voru 20 mínútur eftir af leiknum. 20 mínútur sem stelpurnar vilja helst gleyma sem allra fyrst en verða að muna og læra af. Þær ákváðu að reyna að halda forskotinu. Léleg skot, kraftlausar aðgerðir og fjögur víti fóru forgörðum. Ótrúlega 19-20 tap. Þær töpuðu þessum 20 mínútna kafla 10-1. Hreint út sagt ótrúlegar tölur og langt frá því að vera boðleg frammistaða frá þessu sterka liði.

Mörk KA/Þórs skoruðu: Ásdís Guðmundsdóttir, 7. Þórunn Sigurbjörnsdóttir, 6. Kristín Auðunnsdóttir, 3. Þóra Stefánsdóttir, 2 og Kolbrún Bragadóttir, 1.


Sem betur fer er spiluð þreföld umferð og þær fengu tækifæri strax daginn eftir til að kvitta fyrir laugardaginn.
Seinni leikurinn byrjaði svipað og sá fyrri endaði, stelpurnar voru stressaðar og áttu í miklum erfiðleikum sóknarlega enda lítill sem enginn kraftur í þeim sóknarlega. Hins vegar var vörnin ógnarsterk og Sunna Guðrún með sinn vanalega stórleik fyrir aftan. Smám saman fór þó stressið að rjátlast af þeim og hægt og bítandi vöknuðu þær. Sóknin fór að verða betri og vörnin hélt. Í hálfleik var staðan 11-9 fyrir KA/Þór eftir góðan lokakafla í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik sýndu þær svo sitt rétta andlit. Vörnin ógnarsterk og fyrstu 20 mínúturnar í síðari hálfleik skoraði Grótta aðeins þrjú mörk. Það var ekki fyrr en ákveðið var að breyta um vörn og prófa nýja hluti í lokin sem Grótta fann glufur og náði aðeins að laga stöðuna fyrir leikslok, sannfærandi 20-15 sigur staðreynd hjá norðanmærum.

Mörk KA/Þórs: Ásdís Guðmundsdóttir, 10, Þórunn Sigurbjörnsdóttir, 8. Þóra Stefánsdóttir, 1 og Kristín Auðunnsdóttir, 1.

1. deildin á eldra ári í 4. flokk kvenna er gríðarlega sterk þetta árið og mörg góð lið og aldrei neitt rúm fyrir vanmat. Leikurinn er aldrei búinn fyrr en flautan gellur í lokin og það lærðu stelpurnar þessa helgi. Það besta sem þær taka úr tapleiknum er hvað það er hættulegt að halda að þetta sé komið, að nú megi maður fara að slaka á. Sigurleikurinn á sunnudeginum var miklu betri og á honum er hægt að byggja. Stelpurnar eiga líka mikið inni og munar heldur miklu að eldingarnar tvær í hornunum þær Kolbrún Bragadóttir og Eva Sigurðardóttir glíma báðar við ökkla meiðsli. Því náðu stelpurnar ekki sínum vanalegu hraðaupphlaupum sem oft hafa komið að góðum notum þegar illa gengur sóknarlega.  

Næstu leikir hjá eldra árinu er síðan gegn núverandi deildarmeisturum Fjölnis og Íslandsmeisturum HK í Reykjavík eftir tæpan mánuð. Þegar þær spila sinn leik og eru á fullu geta þær unnið hvaða lið sem er. Það hafa þær sýnt áður. Það er því mikilvægt að halda vel á spöðunum og mæta grimmar til leiks og ná fjórum stigum heim í fjörðinn fagra.

Næsti heimaleikur hjá 4. flokki kvenna er KA/Þór2 á yngra ári gegn Þrótti næstkomandi laugardag í KA heimilinu klukkan 13:30 og því um að gera að kíkja upp í KA heimili, fá sér kaffi og með’ðí næsta laugardag.

Þjálfarar