Skarpi framlengir næstu tvö árin

Handbolti
Skarpi framlengir næstu tvö árin
Skarpi og Haddur handsala nýja samninginn

Skarphéðinn Ívar Einarsson hefur gert nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út tímabilið 2024-2025. Það eru frábærar fréttir að við höldum Skarpa áfram innan okkar raða en hann er einn allra efnilegasti leikmaður landsins.

Skarpi er uppalinn hjá KA og er enn aðeins 17 ára gamall en þrátt fyrir það hefur hann verið í stóru hlutverki í liði KA í vetur eftir að hafa komið sterkur inn í liðið tímabilið 2021-2022. Auk þess að leika með meistaraflokksliði KA er hann fastamaður í yngrilandsliðum Íslands og vann silfurverðlaun á Sparkassen Cup í Þýskalandi með U19 í lok desember.

Þá hlaut hann einnig Böggubikarinn hjá KA á 94 ára afmælisfögnuði félagsins í janúar mánuði 2022 en Böggubikarinn hlýtur einn piltur og ein stúlka sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi.

Það er ekki nokkur spurning að framtíðin er björt hjá okkar manni og erum við afar spennt að fylgjast áfram með framgöngu hans í gula og bláa búningnum næstu árin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is