Strákarnir í KA U tóku á móti Þrótti U í 2. deild karla í dag. Ekki var mikið skorað í upphafi leiks en eftir að Þróttur hafði komist í 1-3 tóku KA strákarnir til sinna ráða. Einar Birgir Stefánsson jafnaði í 3-3 með sínu þriðja marki og í kjölfarið sigu heimamenn frammúr. Varnarleikur KA var til fyrirmyndar og Ágúst Elfar Ásgeirsson sem stóð í markinu hreint frábær þannig að KA leiddi með fimm mörkum í hálfleik, 11-6.
Forystan í upphafi seinni hálfleiks varð mest sex mörk en í kjölfarið slökuðu menn á og hleyptu Þrótturum á köflum óþarflega nálægt sér, munurinn fór nokkrum sinnum niður í tvö mörk en þá var gefið í aftur, allavega um tíma. Lokatölur urðu tveggja marka sigur, 26-24. Sigþór Gunnar Jónsson sem hafði haft hægt um sig í fyrri hálfleiknum minnti rækilega á sig og skoraði níu mörk í þeim seinni, Ágúst Elfar hélt uppteknum hætti og átti áfram fínan leik, varði níu skot í þeim seinni, þar af tvö vítaköst.
Mörk KA U: Sigþór Gunnar Jónsson 10, Dagur Gautason 3, Einar Birgir Stefánsson 3, Jón Heiðar Sigurðsson (yngri) 3, Einar Logi Friðjónsson 2, Heimir Pálsson 2, Jóhann Einarsson 2 og Kristján Garðarsson 1 mark.
Mörk Þróttar U: Fannar Geirsson 6, Sævar Eiðsson 6, Róbert Petterson 3, Smári Kristinsson 3, Arnar Njarðarson 2, Hrannar Jóhannsson 2, Aðalbjörn Jóhannsson 1 og Tómas Gunnarsson 1 mark.