Sigþór Gunnar í 7. sæti á EM með U-20

Sigþór ásamt Stefáni Ólafssyni sjúkraþjálfara
Sigþór ásamt Stefáni Ólafssyni sjúkraþjálfara

Íslenska landsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri náði í dag 7. sætinu á EM í Slóveníu eftir flottan 30-27 sigur á Serbíu og er það jöfnun á næstbesta árangri U-20 landsliðs Íslands á EM. KA átti einn fulltrúa í liðinu og var það skyttan hann Sigþór Gunnar Jónsson. Sigþór lék alla leiki liðsins og kom sér á blað í þeim öllum.

Íslenska liðið gerði mjög vel í að komast í milliriðil með stig eftir jafntefli við Þýskaland í riðlakeppninni. Í fyrsta leik í milliriðlinum mættu strákarnir Serbíu og eftir erfiða byrjun sýndi liðið mikinn karakter með að koma til baka og ná jafntefli, 25-25. Sigþór Gunnar gerði 1 mark í leiknum.

Í seinni leiknum mættu strákarnir heimamönnum í Slóveníu en liðið sem fór með sigur af hólmi myndi fara áfram í undanúrslit keppninnar. Því miður tókst strákunum það ekki og unnu Slóvenar á endanum 25-21 og gerði Sigþór Gunnar alls 3 mörk í leiknum.

Liðið fór því í umspil um sæti 5.-8. þar sem Króatar biðu. Eftir hörkuleik þar sem staðan var meðal annars 17-16 í hálfleik fyrir Króatíu voru það Króatar sem fóru með sigur af hólmi 31-27, Sigþór Gunnar gerði 3 mörk í leiknum.

Strákarnir léku því um 7. sætið og mættu þar Serbíu, í þetta skiptið hóf íslenska liðiði leikinn betur og leiddi 13-12 í hálfleik. Liðið gerði svo vel í að klára leikinn og uppskáru 30-27 sigur. Sigþór Gunnar átti sinn besta leik í keppninni og gerði 6 mörk.

Virkilega góður árangur hjá liðinu en það vantaði nokkra sterka leikmenn í hópnum vegna meiðsla og ljóst að það er fín breidd til í hópnum. Við óskum strákunum sem og þjálfarateyminum til hamingju með glæsilegt mót.