Síðasti heimaleikur Akureyrar í deildinni, frítt inn!

Næstsíðasti leikdagur Olís-deildar karla er runninn upp með með tilheyrandi spennu og taugatitringi. Endanleg röð liðanna í deildinni ræður hvaða lið mætast í átta liða úrslitakeppninni og til að tryggja að allir aðilar sitji við sama borð þá skulu allir leikir síðustu tveggja umferða spilaðir samtímis. Þess vegna hefjast allir leikirnir klukkan 19:30 í kvöld.

Liðin sem mætast í dag eru:
Stjarnan - Valur
Afturelding - ÍR
Akureyri - FH
ÍBV - HK
Fram - Haukar 

Stjarnan berst fyrir lífi sínu í kvöld, með tapi fyrir Val fellur Stjarnan og sömuleiðis fellur Stjarnan ef Fram vinnur Hauka. Valsmenn geta á sama hátt tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri á Stjörnunni og einnig verður Valur deildarmeistari ef Afturelding tapar gegn ÍR.

Baráttan á milli Akureyrar og FH
Það er einnig fjör um miðbik deildarinnar og ýmislegt sem getur gerst þar. Eftir magnaðan sigur Akureyrar á Haukum síðasta laugardag er staðan sú að Akureyri og FH eiga bæði möguleika á fjórða sæti deildarinnar. FH stendur betur að vígi. Ef Akureyri vinnur í kvöld ræðst það í lokaumferðinni hvort liðið hreppir sætið. Tapi Akureyri leiknum er fimmta sætið reyndar í hættu þar sem bæði Haukar og ÍBV eru alveg á næstu grösum.

Það er allavega augljóst að það er mikið undir í leiknum og hægt að lofa áhorfendum í Íþróttahöllinni að það verður barist til síðasta blóðdropa.

Eins og kemur fram á myndböndum á heimasíðu Akureyrar Handboltafélags hefur oft verið tekist harkalega á í leikjum liðanna á undanförnum árum, en við skulum vona að prúðmennskan verði í heiðri höfð í kvöld.

Bendum líka á Facebook síðu Akureyrar https://www.facebook.com/akureyrihand
Það er tilvalið að kíkja þangað inn og læka síðuna.

Fari svo að Akureyri og FH endi í 4. og 5. sætinu eins og nú er raunin þá munu liðin einmitt mætast í átta liða úrslitunum sem enn eykur á mikilvægi leiksins í kvöld.
Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum þá minnum við enn og aftur á að það er frítt á leikinn, fyrir alla á meðan húsrúm leyfir! – Áfram Akureyri!

 

Með von um að sjá þig í Íþróttahöllinni,
Leikmenn og stjórn Akureyrar Handboltafélags.