
Það
gera sér væntanlega allir grein fyrir mikilvægi leiks Akureyrar og Aftureldingar á fimmtudaginn. Bæði liðin eru í hópi þeirra liða sem
geta fallið úr deildinni en auk þeirra eru Valur og HK í þeim hópi. Það er því til mikils að vinna fyrir bæði lið. Sigur
í leiknum myndi gulltryggja Akureyri sæti í deildinni og þar með myndu Afturelding og Valur lenda í tveim neðstu sætum deildarinnar, annað
liðið falla beint en hitt fara í umspil ásamt liðunum í 2. – 4. sæti fyrstu deildarinnar.
Afturelding hefur reynst Akureyringum erfitt í N1 deildinni í vetur og sigraði í bæði skiptin þegar liðin mættust en Akureyri hafði hins vegar
betur þegar liðin mættust í Símabikarnum. Leikurinn hér í Höllinni tapaðist með fimm mörkum, 23 – 28 og var hreinlega einhver
alslakasti leikur Akureyrar hér á heimavelli. Sama var uppi á teningnum þegar liðin mættust í Mosfellsbænum, sex marka sigur Aftureldingar 32 –
26, og leikur okkar manna því miður arfaslakur.
Eftir fyrri leikinn hafði Heimir Örn Árnason þetta að segja:
„Þetta var í raun bara ömurlegt frá A til Ö. Sókn, vörn og þá sérstaklega hlaup til baka sem var bara eiginlega skammarlegt
hjá öllum. Vandræðaleg frammistaða fyrir framan fullt af fólki.
Þetta var bara hræðilegt, eftir langan feril þá var þetta ein lélegasta frammistaðan á heimavelli í mörg ár. Þetta var
nánast ófyrirgefanlegt en við ætlum að vona að fólk fyrirgefi okkur og við ætlum að reyna að bæta upp fyrir þetta eins
fljótt og við getum.“
Og eftir leikinn í Mosfellsbæ sagði Heimir:
„Það var allt lélegt í dag. Önnur skammarleg frammistaða. Við þurfum að skoða hvað hefur farið úrskeiðis
síðustu tvær vikurnar, bæði sem leikmenn og þjálfarar“.
Það er því ekki hægt að finna betri leið til að bæta fyrir þessa tvo leiki en að liðið komi til leiks af fullum krafti og
sýni stuðningsmönnum hvað virkilega í því býr.

Þjálfaraskipti urðu hjá
Aftureldingu nýlega en þar er nú mættur
Konráð Olavsson og verður leikurinn á fimmtudaginn hans þriðji leikur með liðið.
Í síðustu umferð gerði Afturelding sér lítið fyrir og lagði nýkrýnda bikarmeistara ÍR í hörkuleik og þar
á undan töpuðu Mosfellingar með einu marki fyrir FH í Krikanum þannig að enginn skyldi efast um að þeir eru til alls líklegir.
Helsti markaskorari Aftureldingar, Jóhann Jóhannsson verður reyndar fjarri góðu gamni þar sem hann tekur út leikbann eftir að hafa fengið beint rautt
spjald í ÍR leiknum. Slík áföll verða þó ávallt til að aðrir leikmenn stíga upp og liðið tvíeflist við
mótlætið.
Af öðrum markaskorurum skal nefna Sverri Hermannsson og fyrirliðann Hilmar Stefánsson sem einmitt lék Akureyri grátt hér í Höllinni fyrr í
vetur. Þrándur Gíslason hefur farið hamförum á línunni og sá frábæri leikmaður, Örn Ingi Bjarkason er einn af þeirra
markahæstu mönnum þrátt fyrir að hafa misst af mörgum síðustu leikjum vegna meiðsla.

Hilmar Stefánsson (fyrrum leikmaður KA) kunni vel við sig í Höllinni fyrr í vetur
Í sigurleiknum gegn ÍR var það kornungur leikmaður, Birkir Benediktsson sem stal senunni með fimm mörk og ljóst að það þarf að hafa
vakandi auga með honum.
Enn er þó ótalinn besti maður liðsins, markvörðurinn Davíð Hlíðdal Svansson sem hefur átt hvern stórleikinn á
fætur öðrum í vetur.

Davíð Svansson var valinn besti maður Aftureldingar þegar liðin mættust í Höllinni
Við getum því lofað mögnuðum leik í Höllinni á fimmtudaginn, mikið undir og jafnframt síðasti heimaleikur Akureyrar liðsins
á tímabilinu. Það er rétt að benda á að leikurinn hefst hálftíma síðar en vant er eða
klukkan 19:30.
Ástæðan er sú regla að í síðustu tveim umferðum N1 deildarinnar skulu leikir allra liða fara fram á sama tíma.
Við skorum á alla velunnara handboltans á Akureyri að fjölmenna í Höllina og taka fullan þátt í þessu verkefni.